VefTV: „Lúxus að vera með Thomas og Hörð“ sagði Guðjón Skúlason
Það var stórsýning hjá Keflavíkurliðinu þegar það tók á móti liði Snæfells í Toyotahöllinni í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld. Leikgleði heimamanna var í fyrirrúmi og má segja að þeir hafi burstað topplið deildarinnar. Keflavík unnu leikinn með 23 stigum, 112-89.
Keflavík tók og burstaði lið Snæfells í Toyotahöllinni í körfubolta í gær og sýndi að liðið ætlaði sér titil á þessu ári. Heimamenn spiluðu af miklu öryggi og stjórnuðu leiknum mest allan tímann. Keflavík unnu leikinn með 23 tigum, 112-89 og Guðjón Skúlason hrikalega ánægður með sína menn.
„Við vorum heldur seinir í gang og vorum ekki alveg tilbúnir varnarlega. Svo um leið og við fundum okkur eftir fyrsta leikhluta var ekkert aftur snúið,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur. „Þetta er ferskt lið með mikla keyrslu, flotta vörn þó við fáum á okkur 89 stig og ég held að við höfum spilað ágætis leik þrátt fyrir smá hluti hér og þar.“ Guðjón sagði að það væri bara lúxus að vera með Hörð Axel Vilhjálmsson og Thomas Sanders saman í liði en þeim hefur verið líkt saman, bæði í spilamennsku og útliti. „Svo eigum við Lazar Trifunovic inni en hann er ekki alveg tilbúinn í ökklanum þannig við erum með flotta liðsbreidd, flottur hópur og við erum búnir að setja okkur ný markmið og takmörk eftir áramót þannig þetta var bara eitt skref af því en við eigum bara eftir að verða betri.“
Hörður Axel Vilhjálmsson hefur verið lykilleikmaður Keflavíkur á þessu tímabili og nýkjörinn íþróttamaður Keflavíkur. „Það er ekki hægt annað en að líða vel eftir svona leik. Við unnum með 23 stigum án þess að vera að spila eitthvað glimrandi vel þannig þetta er mjög sterkur sigur,“ sagði Hörður Axel. „Thomas Sanders er rosalega góður og við náum mjög vel saman. Það er líka svo mikill kraftur í honum og hann gefur mikið af sér svo það er frábært að spila með svona leikmanni sem hleypur út um allt að djöflast.“
[email protected]