Þriðjudagur 15. febrúar 2011 kl. 14:57

VefTV: Landsbankinn vill lána til Suðurnesjamanna og fá fleiri viðskiptatækifæri inn á borð til sín

Steinþór Pálsson, bankastjóri Landsbankans sagði á opnum fundi í Duus húsum í Keflavík í gær að mikilvægt væri að eitthvað færi að gerast í atvinnumálum á Suðurnesjum.

„Við viljum hitta eigendur bankans, þjóðina og segja frá stefnu, framtíðarsýn, loforðalista, nýju skipulagi og breytingum.

Við kynnum á þessum fundum okkar loforðalista í 6 atriðum, framtíðarsýn til næstu fimm ára. Þar má nefna siðasáttmála, skuldaaðlögun, bætta þjónustu, samfélagslega ábyrgð og að vera hreyfiafl í samfélaginu.

Það eru margir illa farnir, eignir hafa horfið og skuldir hækkað. Við biðjum um tillögur frá fólki. Þessum opnu fundum verður fylgt eftir með fundum með minni hópum, t.d. atvinnuþróunarfélögum,“ sagði Steinþór.

Steinþór segir að starfsfólkið í útibúinu í Keflavík sé að vinna með mörgum aðilum að lausnum fyrir fyrirtæki og fjölskyldur. Landsbankinn bregst vel við góðum viðskiptatækifærum og vill styðja við þau. Hann segir að bankinn komi að kísilverksmiðju í Helguvík og vonast til að það klárist á næstunni. Bankastjórinn segist vilja fá fleiri hugmyndir að atvinnutækifærum inn á borð bankans hér á Suðurnesjum.

„Ég vonast til að skuldaúrræði fyrir heimilin og fyrirtækin losi um ákveðna óvissu í þeirra skuldastöðu og skapi þannig tækifæri til að fara í nýjar fjárfestingar og þá muni fyrirtækin fara betur í gang.“

Nánar í viðtalinu í meðfylgjandi myndskeiði og í prentútgáfu VF á fimmtudaginn.