VEFTV: Lagerhús við golfskála brann
Lagerhús við golfskálann að Kálfatjörn á Vatnsleysuströnd varð eldi að bráð í dag. Eldurinn komst í þak hússins en það var vegfarandi sem varð var við reyk frá húsinu og gerði Neyðarlínunni viðvart.
Slökkvilið Brunavarna Suðurnesja var sent á vettvang ásamt lögreglumönnum frá lögreglunni á Suðurnesjum. Slökkviliðsmennirnir voru fljótir að ráða niðurlögum eldsins. Lagerhúsnæðið er úr timbri og skemmdist nokkuð. Það stendur þétt upp að golfskálanum, sem einnig er timburhús. Þar urðu engar skemmdir. Að vísu stóð reykur yfir golfskálann og því kann að vera reykjarlykt í húsinu.
Í húsinu sem brann var m.a. lager af salernispappír og gosdrykkjum. Þar var frystikista og loftpressa. Einna helst hallast menn að því að eldurinn hafi komið upp af völdum rafmagns en rannsókn lögreglu mun leiða eldsupptök í ljós.
Meðfylgjandi myndskeið var tekið þegar slökkvistarf stóð yfir nú áðan.
Myndskeið og Ljósmyndir: Hilmar Bragi Bárðarson