Miðvikudagur 5. október 2011 kl. 17:02

VefTV: Kokkalandsliðið í stuði í Bláa lóninu

Kokkalandslið Íslands hélt sína fyrstu landsliðsæfingu vetrarins með styrktarkvöldverði í Lava veitingasal Bláa lónsins sl. föstudagskvöld. Gestir fengu að njóta fimm rétta keppnismatseðils liðsins en þar var íslenskt hráefni í hávegum haft.

Kokkalandsliðið mun taka þátt í Olympíuleikum í matreiðslu á næsta ári. Þessi kvöldverður var fyrsta stóra æfingin fyrir það verkefni. Viktor Örn Andrésson, matreiðslumeistari Bláa lónsins var yfirmatreiðslumaður kvöldsins og hann segir að margra daga undirbúningur liggi að svona kvöldi. Auk kokkalandsliðsins voru ungkokkar þeim til halds og trausts í matargerðinni og komu m.a. með sérstakt innlegg í matseðilinn.

„Við skiptum okkur í fimm hópa og allir matreiðslumennirnir í liðinu undirbúa sína rétti, hver á sínum stað en svo komum við með þá á staðinn. Kvöldið er góð æfing fyrir okkur og einnig til að sjá hvernig gengur með hráefnið. Við þurfum að hafa öll handtök upp á tíu, allar hreyfingar og hugsa tíu skref fram í tímann en í keppninni er matreitt fyrir 140 manns. Við eigum eftir að æfa mikið í vetur fyrir Olympíuleikana en þetta fyrsta stóra verkefni vetrarins gekk mjög vel,“ sagði Viktor Örn Andrésson.

Þetta kvöld var annað af tveimur stærstu verkefnum liðsins í undirbúningnum. Um áramótin er annað fjáröflunarkvöld hjá liðinu en þá mæta gestir í kjólfötum og galakjólum.

Hér má sjá fleiri ljósmyndir frá kvöldinu.


Matseðill styrktarkvölds Kokkalandsliðsins

Laxa- og humarrúlla með piparrótar„remólaði" sýrðu
haustgrænmeti, laxahrognum og dilli.

Íslenskt hvannarsinnep, piparrót og ediksgel borið fram
með rótargrænmetisskífum, karsa og kryddhnetum.

Lambahryggvöðvi, tunga, hjarta, bris og skanki ásamt
villtum sveppum, nýjum íslenskum gulrótum, rauðum
berjum og lambasoðsgljáa.

Bakaður ísbúi, hunang og klettasalat.

Bláber og hvítt súkkulaðikrem með skyrkrapís,
grenimarengs og bláberja- og grenisaft.