Þriðjudagur 22. janúar 2013 kl. 08:28

VefTV: Kjötmjöl borið á Hólmsvöll í Leiru

Vallarstarfsmenn Golfklúbbs Suðurnesja standa í ströngu þessa dagana við að bera kjötmjöl á Hólmsvöll í Leiru. Það er von stjórnenda GS að kjötmjölið muni auka jarðveg í brautum vallarins sem hafa orðið illa úti í þurrkum undanfarin sumur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem GS fer þessa leið til að bæta gæði vallarins en sömu aðferð var einnig beitt fyrir fjórum árum. Kylfingur.is ræddi við Gunnar Jóhannsson, framkvæmdastjóra GS, um stöðu mála í Leirunni.

„Þetta er aðferð sem golfklúbbar hafa beitt undanfarin 3-4 ár. Við gerðum þetta fyrst fyrir fjórum árum og ákváðum að gera þetta á ný í ár. Ástæðan fyrir því að við erum að bera þetta á völlinn er að það vantar jarðveg á brautir og þetta er ein leið til þess. Þetta virkaði fyrir fjórum árum,“ segir Gunnar. Mávurinn er sólgin í kjötmjöl og eru GS-ingar eru snemma á ferðinni til að komast hjá því að mávurinn setjist að í Leirunni.

„Það er ekki hægt að bera kjötmjöl á völlinn eftir miðjan mars því þá fer mávurinn að koma frá Marokkó þar sem hann dvelur yfir vetramánuðina. Við verðum að gera þetta núna til að fá að vera í friði.“

Nánar má fræðast málið í myndbandinu hér að ofan.


Það er nóg til af kjötmjöli í Leirunni og verður því dreift á völlinn næstu daga. Myndir/Kylfingur.is