Fimmtudagur 24. febrúar 2011 kl. 09:58

VefTV: Keflavík heimsækir Njarðvík í kvöld

Í kvöld kl. 19:15 fer fram einn af skemmtilegri leikjum í Iceland Express deild karla þar sem Keflvíkingar heimsækja nágranna sína í Njarðvík. Búist er við æsispennandi leik og hafa Njarðvíkingar bætt við sig leikmanni, honum Giordan Watson, ásamt því að hafa sagt upp Cristopher Smith.

„Þetta verður æsispennandi leikur eins og alltaf á milli þessara liða. Við þurfum að vinna 3 leiki af fjórum sem eftir eru og mætum við í þennan leik til þess að vinna,“ sagði Friðrik P. Ragnarsson, annar þjálfara Njarðvíkur. „Nýji leikmaðurinn er eins og við vonuðumst eftir. Hann er snöggur, sterkur og heldur boltanum vel en okkur hefur vantað svona leikmann í langan tíma.“

Guðjón segir leikina á milli þessara liða alltaf vera harða leiki og þurfa þjálfarar liðanna að setja upp sérstakt leikskipulag, mjög frábrugðið þessu venjulega. „Ég hef heyrt aðeins af þessum nýja leikmanni Njarðvíkur en það hefur lítið áhrif á okkar leik. Við látum þá frekar hafa áhyggjur af okkar leik en við þeirra,“ sagði Guðjón í samtali við Víkurfréttir. „Við verðum með tólf leikmenn í 100% ástandi en það þýðir ekkert annað á móti liði eins og Njarðvík. Það er alltaf gaman að mæta í Ljónagrifjuna, enda hörku leikir alltaf á milli þessara liða.“

[email protected]



Giordan Watson er nýr leikmaður Njarðvíkur og spilaði mikið í æfingaleik á móti Fjölni á þriðjudaginn. Friðrik segir hann lofa góðu.