Fimmtudagur 13. janúar 2011 kl. 12:53

VefTV: „Kannski ég fari núna að horfa á fréttir“ segir Sigurður Ingimundarson

Sigurður Ingimundarson lét af störfum sem þjálfari Njarðvíkur í mfl. karla í körfubolta nú á dögunum. Sigurður hefur verið farsæll þjálfari í körfuboltanum á Íslandi og einnig þjálfað fyrir utan landsteinanna en hætti hjá UMFN eftir slæmt gengi með liðið sem er nú að berjast um fallsæti.

„Það eru allskonar ástæður fyrir því að ég hætti en aðal ástæðan er sú að þetta var ekki eins og við vildum, hvorki árangur né annað. Við töldum að einfaldasta leiðin væri fyrir allt og alla að ég færi eitthvað annað og myndi hætta.“

Mikið hefur verið rætt um kaup leikmanna til Njarðvíkur en aðeins einn útlendingur spilar fyrir liðið í karlaflokki. Var ástæðan fyrir því að þú hættir að þú fékks ekki að kaupa leikmenn? „Það skiptir minnsta máli en það sem skiptir máli er að þetta taldi ég farsælustu lausnina núna til að liðinu myndi ganga betur og höfum við allir verið að stefna að því sama. Það var ekkert að ganga þó allir hafi verið að reyna og þá var þetta bara næsta skref.“

Sigurður hætti í samráði við stjórn körfuknattleiksdeildarinnar. „Þetta var allt gert í mestu vinsemd og bróðerni og kom mér og stjórnarmönnum vel saman en þetta var allt gert til að liðinu gangi betur.“

Gengi liðsins hefur verið slæmt á tímabilinu og ætluðust menn meira af liði Njarðvíkur. En afhverju var gengið ekki betra? „Það er frábær spurning. Það vantaði ekki viljann og menn voru allir að reyna. En það voru ýmsir hlutir sem hefðu mátt vera öðruvísi en voru það ekki og þess vegna var þetta útkoman.“

Sigurður hefur verið að þjálfa í fjölda ára og er einnig núverandi landsliðsþjálfari. En hvað tekur svo við? „Bara rólegheit. Þetta er svo nýskeð og ég er ekkert farinn að hugsa lengra. Nú er ágætt að fara horfa einstökusinnum á fréttir til tilbreytingar, kanski er eitthvað í fréttum.“ sagði Sigurður.

[email protected]