Föstudagur 26. desember 2014 kl. 14:14

VefTV: Jólakveðja frá Reykjanesbæ. Hin fyrstu jól.

Stuttu jólamyndband þar sem 18 leikskólabörn frá jafn mörgum löndum eru í aðalhlutverki.

Flest eigum við minningar um einhvers konar fyrstu jól; hin fyrstu jól sem börn, eftir að við fórum að búa, eftir að börnin fæddust, eftir að hafa misst einhvern nákominn o.s.frv. Sumar þessara minningar eru góðar og aðrar ekki eins góðar. Allt eftir því hvernig okkur leið á þeim tíma sem við minnumst hverju sinni.

Góðar æskuminningar
Minningar frá mínum fyrstu jólum tengjast aðallega jólahaldinu heima á Kirkjuteignum og litlu jólunum í skólunum, bæði barnaskólanum og tónlistarskólanum. Sem betur fer eru þetta góðar minningar sem kalla fram góðar tilfinningar. Jólahald fjölskyldunnar var í nokkuð föstum skorðum en mótaðist af því að pabbi var stundum á vakt yfir jólin. Það kallaði aftur á að laga þurfti jólahaldið að því hvort hann væri á dagvakt eða næturvakt og þá annað hvort að flýta borðhaldi eða seinka eftir því hvernig stóð á. Aðrar góðar minningar úr bernsku tengjast nálægðinni við Keflavíkurkirkju, hversu vel við heyrðum hljóminn í kirkjuklukkunum og sáum fólk streyma til og frá kirkjunni yfir jóladagana.

Aðrar minningar úr æsku tengjast jólaböllum í Ungó, og síðast en ekki síst litlu jólunum í skólanum. Undirbúningur þeirra stóð dögum saman, það þurfti að búa til jólakort með glansmyndum og UHU lími, búa til póstkassa sem var eins og kirkja með bómullarsnjó á þakinu og settur var fram á gang fyrir framan hverja stofu, hlusta á kennarann lesa jólasögu, fara á jólaball út í íþróttahús, skreyta töfluna o.s.frv.
Einnig vil ég nefna litlu jólin í tónlistarskólanum sem fram fóru í salnum á efri hæðinni á Austurgötu 13. Fyrst voru alltaf jólanemendatónleikar og jólaball á eftir. Alltaf sama formið og allt í föstum skorðum. Allt eru þetta góðar minningar því fullorðna fólkið sem tengist þessum minningum lét manni líða vel, bæði heima og annars staðar.

Ósk um gleðileg jól og fallegar minningar
Um leið og ég óska öllum gleðilegra jóla vona ég að góðar minningar um einhvers konar fyrstu jól ylji sem  flestum um hjartaræturnar. Reykjanesbæjar sendir frá sér rafræna jólakveðju þetta árið og undir henni hljómar hið gullfallega jólalag Ingibjargar Þorbergs við ljóð Kristjáns frá Djúpalæk „Hin fyrstu jól“ en þetta mun vera fyrsta jólalagið sem gefið var út á íslenskri hljómplötu og var dægurlag en ekki sálmur. Það fer vel á því að hlýða á þetta fallega lag eftir þessa merkilegu konu sem búið hefur í Reykjanesbæ undanfarin ár.

Kjartan Már Kjartansson, bæjarstjóri