Miðvikudagur 17. apríl 2013 kl. 23:46

VefTV: Grindvíkingar flengdu Stjörnuna í Röstinni

- Unnu frábæran sigur þrátt fyrir áfall í upphitun

Það var gleði hjá gulum eftir stórsigur Grindavíkur gegn Stjörnunni í fyrstu viðureign þessara liða um Íslandsmeistaratitlinn í Domino’s deild karla, 108-84. Grindvíkingar fóru illa með Stjörnumenn í fjórða leikhluta sem gulir unnu 34-12. Bikarmeistaranir hreinlega flengdir af ríkjandi Íslands- og deildarmeisturum.

Víkurfréttir ræddi við þá Jóhann Ólafsson og Þorleif Ólafsson að leik loknum. Þeir voru skiljanlega ánægðir með úrslit leiksins. „Ég er virkilega ánægður með að vinna þennan leik. Það skiptir engu máli hvort við hefðum unnið þennan leik með einu stigi eða eins og við gerðum. Við erum 1-0 yfir og þurfu að mæta með sama kraft – ef ekki meiri í Ásgarð á föstudag,“ sagði Jóhann að leik loknum.

Pettinella veiktist í upphitun

Grindvíkingar voru án Ryan Pettinella í kvöld. Hann veiktist í upphitun og fór heim í hálfleik eftir að hafa bókstaflega kastað upp í klefa skömmu fyrir leik. Þegar Sigurður Þorsteinsson fór af velli eftir að hafa sína fjórðu villu voru Grindvíkingar því án „stórs“ leikmanns gegn stóru og stæðilegu liði Stjörnunnar. Þá fór um marga stuðningsmenn Grindavíkur sem voru einnig án Ómars Sævarssonar sem féll nýverið á lyfjaprófi. Grindvíkingar leystu hins vegar þessa stöðu listilega vel og fóru hreinlega á kostum.

„Þetta er í fyrsta sinn síðan ég kom til Grindavíkur að við erum með engan stóran leikmann. Siggi hefur alltaf verið, svo Ryan og Ómar. Svo allt í einu missum við þessa þrjá menn út á einu bretti en náðum heldur betur að klóra okkur fram úr þessu,“ segir Jóhann.

Frábær stemmning í Röstinni

Aaron Broussard átti frábæran leik fyrir Grindvíkinga í kvöld - skoraði 39 stig og tók einnig 12 fráköst. „Aaron átti virkilega góðan leik, var duglegur að sækja að körfunni og klára. Hann er hörkuleikmaður,“ segir Þorleifur sem var ánægður með stemmninguna í Röstinni í kvöld.

„Það var frábær stemmning í kvöld. Það vantar kannski 100 áhorfendur í viðbót og þá erum við góðir,“ segir Þorleifur og glottir. „Fólk var að gefa ‘high-five’ af því að við rústuðum þessum leik – við erum samt bara 1-0 yfir og næsti leikur verður stríð.“ 


Aaron Broussard fór á kostum í Grindavíkurliðinu i kvöld og skoraði 39 stig.


Jóhann Árni Ólafsson og Þorleifur Ólafsson eru lykilmenn í Grindavíkurliðinu.