VEFTV: Fæddi barn í afgreiðslu HSS í nótt
 Lítil Sandgerðismey var heldur betur að flýta sér í heiminn snemma í morgun. Móðirin, Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir, var rétt komin inn um útidyrnar á Heilbrigisstofnun Suðurnesja þegar barnið kom í heiminn. Barnsfaðirinn, Helgi Ármannsson, hafði skutlað henni upp á dyrum við HSS og spurt hvort hann ætti að koma með henni inn. Ólöf sagði honum hins vegar að fara og leggja bílnum.
Lítil Sandgerðismey var heldur betur að flýta sér í heiminn snemma í morgun. Móðirin, Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir, var rétt komin inn um útidyrnar á Heilbrigisstofnun Suðurnesja þegar barnið kom í heiminn. Barnsfaðirinn, Helgi Ármannsson, hafði skutlað henni upp á dyrum við HSS og spurt hvort hann ætti að koma með henni inn. Ólöf sagði honum hins vegar að fara og leggja bílnum.
Matthildur Birgisdóttir, starfsmaður í afgreiðslu Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja, stóð vaktina á símanum hjá HSS í nótt og sá um að opna útidyrnar fyrir Ólöfu en stofnunin er ávallt læst á nóttinni. Sem betur fer sá Matthildur þegar Ólöf kom og gat því opnað strax. Annars hefði barnið komið í heiminn úti á stétt.

Matthildur segir það sem gerðist í nótt vera sannkallað kraftaverk. Hún sé þó ennþá að átta sig á því sem gerðist, enda atburðarásin hröð. Hún hafi rétt náð að hringja upp á fæðingardeild eftir ljósmóður og þá hafi barnið verið komið í heiminn á gólfinu í afgreiðslu HSS. Ljósmóðirin hafi hins vegar verið snögg á staðinn og allt hafi farið á besta veg. Litla stúlkan hafi hins vegar verið fljótari í förum og hreinlega rann út áreynslulaust að sögn móðurinnar. Litla prinsessan sem fæddist í nótt er annað barn þeirra Ólafar og Helga en fyrir eiga þau tveggja ára stúlku sem er búin að koma í heimsókn tvisvar sinnum í dag að skoða litlu systur sína.
Matthildur heimsótti Ólöfu á fæðingardeildina í kvöld og fékk að halda á nýfæddu stúlkunni sem var 3970 grömm við fæðingu og 53 sentimetrar.
Faðirinn, Helgi Ármannsson, var pollrólegur í nótt og var að leggja bílnum á bílastæðinu við HSS á meðan Ólöf var að fæða barnið í afgreiðslunni. Honum var vitanlega brugðið þegar hann kom inn í afgreiðsluna og sá að barnið var komið í heiminn. Hann átti frekar von á því að Ólöf væri komin upp á fæðingardeild og meiri rólegheit yrðu yfir fæðingunni. „Þegar ég kom á staðinn var bara allt búið,“ sagði Helgi í samtali við Víkurfréttir í kvöld.
Í meðfylgjandi myndbandi eru viðtöl bæði við móður og föður litlu stúlkunnar sem lýsa atburðarás næturinnar.

Viðtöl og myndir: Hilmar Bragi Bárðarson

Litla prinsessan er 53 sentimetrar og 3790 grömm.

Hún var ekkert á því að opna augun fyrir forvitinn blaðamann Víkurfrétta.

Hér gerðust atburðir næturinnar og litla stúlkan kom í heiminn - í afgreiðslunni. Á efstu myndunum eru þær Ólöf Guðbjörg og Matthildur Birgisdóttir með litlu stúlkuna.
