Miðvikudagur 12. janúar 2011 kl. 13:52

VefTV: „Erum báðir jafn frekir“ segir Friðrik, þjálfari Njarðvíkur

Friðrik Ragnarsson og Einar Árni Jóhannsson tóku við mfl. karla Njarðvíkur í körfubolta í gærkvöldi eftir að Sigurður Ingimundarson hætti störfum eftir slæmt gengi.

„Þetta leggst vel í okkur þótt við tökum við á erfiðum tímapunkti en við teljum okkur getað náð liðinu upp úr þessum öldudal,“ sagði Friðrik.

Næsti leikur er á móti ÍR sem eru í 11. sæti en Njarðvík situr í sætinu fyrir ofan þá og er það sannkallaður fallbaráttuleikur. „Það er alltaf erfitt að koma inn á miðju tímabili og er staðan mjög erfið,“ sagði Einar Árni. „En hvaða leik við erum að fara spila skiptir ekki öllu máli. Við þurfum að sækja tvö stig og fáum leik á heimavelli svo við biðjum ekki um mikið meira á þessum tímapunkti.“

Strákarnir áttu sína fyrstu æfingu með liðinu eftir fund með liðinu í gærkvöldi og byrja þeir strax að vinna hörðum höndum með leikmönnum. „Flestir leikmannanna taka vel í þetta að okkar vitneskju,“ sagði Friðrik. „Mannskapurinn er fullur tilhlökkunar til að takast á við framhaldið og þeir vita að þeir geta gert betur en þeir hafa verið að sýna í vetur,“ bætti Einar Árni við.

Hvor ykkar er frekari þegar kemur að ákvarðanatökum?
„Við erum báðir jafn frekir“ sagði Friðrik. „Við leysum það okkar á milli með sjómann,“ bætti Einar Árni við í lokin.

[email protected]