Sunnudagur 20. febrúar 2011 kl. 16:06

VefTV: „Byrjuðum í KR-rútunni en færðum okkur svo yfir“

Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari nýbakaðra bikarmeistara Keflavíkur, vann loksins þennan titil en hann hefur komist í úrslitaleikinn oft áður en aldrei farið heim með dolluna.

„Við byrjuðum ekki vel heldur byrjuðu þær illa. Við vorum bara að spila okkar venjulega körfubolta,“ sagði Jón Halldór. „Í hálfleik sagði ég þeim bara að þetta væru tvær rútur, annarsvegar Keflavíkurrútan og hinsvegar KR-rútan. Við vorum í KR-rútunni í fyrrihálfleik, þeirra tónlist, þjálfari, bílstjóri en ég vildi ekki vera þar þannig við fórum í Keflavíkurrútuna.“

Pálína Gunnlaugsdóttir, leikmaður Keflavíkur, leið vægast sagt mjög vel eftir leikinn. „Ég held að vörnin hafi skilað okkur þessum sigri hérna í dag. Þó sóknin hafi ekki verið sú besta þá spilar svo margt inn í svona leik. Þú missir skot sem þú værir venjulega að sökkva útaf stressi,“ sagði Pálína, aðspurð hver væri lykillinn af þessum sigri. „Betra liðið vann og það lið sem var meira hungrað.“

Birna Valgarðsdóttir, einnig leikmaður Keflavíkur, var valinn besti leikmaðurinn í leiknum og sagði liðsheildina vera ástæðan fyrir sigrinum. „Þetta er ótrúleg tilfinning og spennufall að það er ekki lýsanlegt,“ sagði Birna. „Ég er svo ótrúlega stolt af liðinu því við ákváðum að gefast aldrei upp, ekki hengja haus og klára þennan leik, sem við svo gerðum.“

Stúlkurnar komu heim í félagsheimili Keflavíkur á Sunnubraut þar sem tekið var á móti þeim. Kvennaráð Keflavíkur grillaði læri og með því handa stúlkunum og voru þær alsælar.

Nánar í meðfylgjandi myndskeiði.

[email protected]



Fyrsti titill Keflavíkur eftir að nýja félagsheimilið var byggt og voru meistarasvalirnar vígðar með flugeldasýningu fyrir stelpurnar.