VefTV: Bara eitt lið sem mætti til leiks
„Vorum andlega fjarverandi“ segir Elvar Már
„Við erum engan veginn sáttir við okkar spilamennsku í þessum tveimur leikjum. Við vorum hikandi í öllum aðgerðum sóknarmegin, látum þá vinna okkur í frákastabaráttunni, sem varð okkur mjög dýrkeypt í þessum leik. Það er fúlt að bjóða okkar fólki ekki upp á betri frammistöðu,“ segir Einar Jóhannsson þjálfari Njarðvíkinga sem telur að Njarðvíkingar verði að mæta fastir fyrir í næsta leik og sýna hörku eftir stórt tap á heimavelli gegn Grindvíkingum. „Við þurfum að skoða vörnina og hvernig við stöðvum Clinch sem er búinn að skora stóran hluta af stigum þeirra. Hann og Ómar létu okkur líta illa út hér í kvöld,“ en Njarðvíkingum tókst illa til að hemja þá félaga.
Aðspurður um hvort vöntun sé á framlagi frá fleiri leikmönnum í sóknarleiknum segist Einar telja að liðið þurfti fyrst og fremst að vera sterkara sem liðsheild. „Við höfum fulla trúa á þessu og erum í þessu til þess að berjast um þennan titill,“ sagði þjálfarinn.
Elvar Már Friðriksson var allt annað en sáttur við spilamennsku Njarðvíkinga. „Það var bara eitt við sem mætti til leiks í dag, það var Grindavík. Við vorum nánast andlega fjarverandi í þessum leik. Sóknarleikurinn var hræðilegur, vörnin sömuleiðis og baráttan var þeirra megin. Maður verður bara að biðjast afsökunar á svona frammistöðu og girða sig í brók fyrir næsta leik.“
Viðtöl við Einar og Elvar má sjá hér að ofan.