Miðvikudagur 10. nóvember 2010 kl. 13:59

VefTV: Árni Sigfússon - Samstarf og engir stælar í ríkisstjórninni

Hvað segirðu eftir þennan mikla fund hérna í Víkingaheimum?
„Ég er bara ánægður með þennan fund, sérstaklega fundurinn í morgun, bæði tækifæri okkar til þess að koma á framfæri því sem er að gerast og upplýsa ráðherrana alla sem þarna voru saman komnir. Það var mjög mikilvægt og síðan sá andi á fundinum að menn vilja vinna saman, og ég er ítrekað að segja að þau störf, sem eru á þriðja þúsund sem við erum að byggja hér upp og eru mjög skammt undan. Það er auðvitað stóra málið í þessu að okkur takist að koma því áfram og ég fann ekki annað en að ríkisstjórnin sé einhuga um að styðja okkur. Það er ekki víst að þau fari öll hratt af stað eða þau séu öll samþykkt. Við heyrðum það á ECA umræðunni.
Það var kanski meira táknrænt það sem var verið að ákveða að gera, en það snýr þó að félagslegri þjónustu og stuðningi sem snýr að atvinnumálum, snýr að menntun, og þetta eru auðvitað merkileg verkefni sem við munum núna vinna saman að.

Og það voru nokkur ný mál eins og hersafn og alvarleg umræða um landhelgisgæsluna og fleiri mál.
„Já, það má alveg segja það. Vonandi bara að menn klári þessi mál sem fyrst, þessi nefnd sem er að fara í að skoða kosti og galla þess að flytja landhelgisgæsluna og að hún skili jákvæðri niðurstöðu sem er óskandi. Og sama með herminjasafnið sem við höfum nú oft verið að ræða hér á Suðurnesjum að það er þó verið að setja það í farveg. Það skapar auðvitað störf en það er líka hluti af ferðaþjónustunni eins og Íslendingur og Víkingaheimar, þannig að þetta hefur allt sitt að segja.“

Þannig að þú ert svona ágætlega sáttur?

„Já, ég held að við segjum það. Og ég held að það sé mestu vert að finna svona í alvöru samstarfsvilja allra aðila til þess að koma hlutunum áfram hér, ég treysti á það.“

Og ríkisstjórnin sýni það með því að halda í fyrsta skipti fund á Reykjanesi.
„Já, hún sýnir það, og líka með því að tala þannig. Ég vona að það hafi ekki verið viðtöl við ráðherra eftir þennan fund sem segja eitthvað annað eins og gerðist í Stapanum. En mér finnst vera góður vilji allra ráðherra til að fylgja okkur eftir. Það kom til dæmis fram í máli Svandísar Svavarsdóttur að það eru engin mál að tefja þar, það er verið að afgreiða skipulagsmál og það er allt í góðum gangi. Ögmundur er að skoða þetta landhelgisgæslumál, þó hann hafi sínar efasemdir með ECA, en það er ágætt að fá að vita hvaða minni hagsmunir fyrir meiri hann hafi áhyggjur af. Þá held ég að það skýrist betur. Orkumálin eru í farvegi og ég finn ekki að það sé andstaða við þau verkefni, hvorki álver né kísilver, þó við vitum alveg af fyrri andstöðu pólitískra afla gagnvart álverinu þá finnum við það ekki inni í ríkisstjórn enda var hún skipuð með þetta markmið að klára þetta verk.

Þú ert bjartsýnn á að orkumálin muni klárast og orkuöflunin?
„Já, ég er viss um það. Það eru hér mörg orkufyrirtæki á landinu og stundum veltir maður fyrir sér af hverju í ósköpunum er umræðan orðin þannig að við þurfum að útvega alla orku hér á þessu svæði fyrir okkur, það hefur aldrei áður verið þannig í landinu. Þannig væri álverið í Straumsvík ekki byggt upp, né Grundartangi og varla þessi stóru verkefni ef að menn væru að horfa á svona afmörkuð svæði. En við erum engu að síður ansi vel fær í orku hér og með samstarfi við Landsvirkjun og Orkuveituna, þá sjáum við alveg fram á að þessi verkefni eru raunveruleg og það er ekki langt þangað til að menn geti samið.“

Eitthvað eitt sem þú vilt nefna sem þú ert meira ánægður með en annað?
„Ég er bara í grunninn og hreinskilni ánægður með að finna sannan vilja til samstarfs. Ég finn ekki þessa stæla sem maður hafði kanski áhyggjur af, ég finn bara góðan vilja til samstarfs og það er grunvöllur sem við getum unnið á en það þarf að vinna hratt. Hver dagur þar sem ekkert er að gerast í atvinnumálum, hann er kostnaðarsamur fyrir heimili, sveitafélög og fyrirtæki og þessv egna liggur á að koma þessum hlutum áfram.“