VefTV: Andoxunarefni unnið úr örþörungum á Ásbrú
– Ein fullkomnasta verksmiðja sinnar tegundar í heiminum
Örþörungaverksmiðja líftæknifyrirtækisns Algalífs hefur tekið til starfa á Ásbrú í Reykjanesbæ, aðeins átta mánuðum eftir undirritun fjárfestingasamnings við iðnaðar- og viðskiptaráðuneytið. Þessi tveggja milljarða króna græna fjárfesting skapar þrjátíu ný störf á Suðurnesjum í fullkomnustu verksmiðju sinnar tegundar í heiminum.
Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, opnaði formlega fyrsta áfanga örþörungaverksmiðju Algalífs. Fyrsti áfangi hefur gengið vonum framar en áætlaður kostnaður við uppbyggingu örþörungaverksmiðjunnar er um tveir milljarða króna eða 17,6 milljónir Bandaríkjadala. Verksmiðjan verur fullkláruð um mitt ár 2015. Nú starfa tæplega tuttugu manns hjá fyrirtækinu, en verða um 30 þegar verksmiðjan verður komin í fullan gang. Algalíf Iceland ehf. var stofnað í ágúst 2012 og er í eigu norska félagsins NutraQ A/S.
Í versksmiðjunni verða ræktaðir örþörungar sem nefnast Haematococcus Pluvialis, en úr þeim er unnið virka efnið Astaxanthin. Það er sterkt andoxunarefni sem notað er í fæðubótarefni og vítamínblöndur, auk þess að vera neytt í hylkjaformi. Mikill og vaxandi markaður er fyrir efnið og heimsframleiðslan núna annar hvergi nærri eftirspurn.
Í samtali við Víkurfréttir sagði Skarphéðinn Orri Björnsson, framkvæmdastjóri Algalíf, að nú sé framleiðslugeta verksmiðjunnar 300 kíló af Astaxanthin á ári. Þegar verksmiðjan verður fullbyggð verður framleiðslugetan eitt tonn af efninu á ári. Fullum afköstum verður náð árið 2016.
Skilyrði eru sérstaklega hagstæð hér á landi til grænnar hátækniframleiðslu af þessu tagi. Nálægð við alþjóðaflugvöll, hreint vatn, örugg afhending orku og hæft starfsfólk eru meðal þeirra þátta sem réðu staðarvalinu.
Framleiðslan er einstaklega umhverfisvæn og er verksmiðjan sú fullkomnasta sinnar gerðar í heiminum. Þörungarnir eru ræktaðir í lokuðu kerfi þar sem næringu, hita og birtumagni er stýrt nákvæmlega.
Algalíf nýtir nú 1.500 fermetra húsnæði sem þegar er til á Ásbrú. Gengið hefur verið frá samningum um að byggja við það um 6.000 fermetra. Gengið hefur verið frá öllum samningum við KADECO, Þróunarfélag Keflavíkurflugvallar ehf. Samtals verða verksmiðja og rannsóknarstofur í 7.500 fermetra húsnæði þegar uppbyggingunni verður lokið.
Fullbyggð verksmiðja Algalífs mun nota 5 megavött af raforku til framleiðslunnar samkvæmt samningi við HS orku um raforkukaup til 25 ára.