Þriðjudagur 5. apríl 2011 kl. 22:50

„Varnarleikurinn skilar svona lágu stigaskori,“ segir Jón Halldór - Keflavík leiðir 2-0

„Þetta eru tvö sterk varnarlið eins og sést á skorinu en það eru ekki mörg lið sem halda okkur í 67 stigum,“ sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, eftir góðan sigur í kvöld á Njarðvík 64-67 í öðrum leik úrslitaeinvígis Iceland Express deildar kvenna í körfubolta í Ljónagryfjunni í Njarðvík.

„Það er lagt gríðarlega mikið upp úr varnarleiknum og það skilar þessu stigaskori. Við þurfum bara að einbeita okkur að því sem við erum að gera, passa boltan betur og vanda okkur meira og ef við gerum það, þá erum við í góðum málum,“ sagði Jón.

Njarðvíkurstúlkur voru mun sterkari í byrjun leiks og unnu þær fyrsta fjórðung 22-16. Þá mættu Keflavíkurstúlkur í annan fjórðung með svakalega baráttu og komust fljótt yfir. Þær juku forskotið með hverri mínútunni fram að hálfleik en þegar liðin gengu til búningsklefa var staðan 36-49, Keflavík í vil.

Keflavík kom ekki stigi á blað fyrstu fjórar mínúturnar af seinni hálfleik og skoruðu þær aðeins 14 stig í þriðja fjórðungi gegn 19 stigum heimastúlkna. Þá skoraði Keflavík aðeins fjögur stig í seinasta fjórðunginum en Njarðvíkurstúlkur náðu þó ekki að brúa bilið og voru lokatölur 64-67 fyrir Keflavík.

„Við mættum í þennan leik með það í huga að jafna einvígið en það tókst ekki. Við spiluðum bara ekki nógu vel. Of margir tapaðir boltar og vörnin í öðrum leikhluta var ekki upp á marga fiska. Stelpurnar voru með góða baráttu í seinni hálfleik og voru nálægt því að jafna en það vantar herslu muninn sem er ekki nógu gott. Við þurfum að bæta þetta,“ Sagði Sverrir Þór Sverrisson, þjálfari Njarðvíkur.

Stigahæstar í liði Keflavíkur voru Bryndís Guðmundsdóttir 24/7 fráköst, Ingibjörg Jakobsdóttir 12, Marina Caran 11/7 fráköst, Birna Ingibjörg Valgarðsdóttir 8/6 fráköst, Lisa Karcic 6/10 fráköst/5 stolnir, Pálína Gunnlaugsdóttir 4/8 fráköst og Hrund Jóhannsdóttir 2.

Stigahæstar í liði Njarðvíkur voru Shayla Fields 25/4 fráköst/5 stoðsendingar, Julia Demirer 15/10 fráköst, Dita Liepkalne 14/8 fráköst, Ólöf Helga Pálsdóttir 7/6 fráköst, Anna María Ævarsdóttir 2 og Ína María Einarsdóttir 1.

Keflavík hefur þá unnið tvo sigra en Njarðvíkingar engan og geta Keflavíkurstúlkurnar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn í Toyotahöllinni á föstudaginn.

[email protected]



Jón Halldór Eðvaldsson var mjög ánægður með sínar stelpur í kvöld.





Bryndís Guðmundsdóttir átti frábæran leik fyrir Keflavík en hún skoraði 24 stig og var með 7 fráköst.