Varnar- og leiðigarðar rísa austan og vestan Grindavíkur
Myndskeið í 4K gæðum fylgir fréttinni
Unnið er allan sólarhringinn við varnar- og leiðigarða bæði austan og vestan byggðarinnar í Grindavík. Stórvirkar vinnuvélar eru nú að störfum í heiðinni austan við byggðina í Grindavík þar sem verið er að ryðja upp varnargörðum og að keyra í þá efni á svokölluðum búkollum.
Varnar- og leiðigarðurinn austan byggðarinnar í Grindavík hefur m.a. það hlutverk að verja byggðina í Þórkötlustaðarhverfi. Garðurinn er um 1000 metra langur og þrír til fjórir metrar að hæð.
Austurgarðurinn nær að garðinum norðan við bæinn sem tók við mestu af því hrauni sem rann í gosinu 14. janúar. Þá er einnig verið að vinna að görðum vestan við byggðina í Grindavík, við Nesveginn.
Unnið er í kappi við tímann en búist er við eldgosi á næstu sólarhringum og jafnvel á næstu klukkustundum. Komið kvikan upp sunnan eða vestan við Hagafell þá mun reyna verulega á varnargarðana við Grindavík.
Myndatökumaður Víkurfrétta flaug dróna yfir framkvæmdasvæðin í dag, miðvikudaginn 28. febrúar.