„Var ekki viss um að sjá hann aftur“
- segir Katarina eigandi Hunters í viðtali við VF
Katarina Reinhall eigandi Hunters, var þreytt en hamingjusöm þegar Víkurfréttir náðu af henni tali skömmu eftir endurfundi hennar við hundinn sinn. Eftir umfangsmikla leit fannst hundurinn Hunter loks en það var Katarina sjálf sem óð út í sjó eftir að hafa séð hann út í hólma við Þórshöfn í Ósabotnum.
„Þegar ég sá fótsporin þá hugsaði ég að þau væru eftir hundinn minn. Það var stutt á milli sporana og ég hugsaði að hann væri þreyttur. Ég sá hann svo út á skerinu og byrjaði að kalla á hann. Ég óð út í og björgunarsveitarmennirnir á eftir mér, það var heppni að hann var á eyjunni þar sem hann gat ekki flúið frá okkur.“
Katarina hikaði hvergi og óð strax út í sjóinn. „Það var dálítið kalt, en ég vildi bara ná í hundinn minn. Hann var hræddur við mig í upphafi svo ég þurfti að tala til hans og róa hann niður. „Þetta ert þú mamma,“ hugsaði hann sjálfsagt. Ég er svo ánægð með að hafa loksins fundið hann en þetta hafa verið hræðilegir dagar að undanförnu sem einkennst hafa af streitu og sársauka.“
Katarina segist vera afar þakklát fyrir alla hjálpina og góðmennskuna sem fólk hefur sýnt henni. „Það er ótrúlegt hve mikla samúð fólk getur sýnt manneskju í þessari stöðu. Ég mun minnast Íslands með hlýju í hjarta. Ég þakka ykkur öllum fyrir allt saman.“
Aðspurð um líðan Hunters segir Katarina að hann sé þreyttur en í ágætis ásigkomulagi. „Ég hélt að þetta yrði verra en hann lítur vel út.“
Misstir þú einhvern tímann vonina? „Já í rauninni gerði ég það. Ég var ekki viss um að ég myndi sjá hann aftur. Það var erfið ákvörðun fyrir mig hvenær ég þyfti að fara heima, þar sem börnin mín eru í Stokkhólmi. Þetta hafðist þó á endanum, loksins. Nú get ég farið heim.“
Sjálf hefur Katarina ekki sofið mikið en hún varði nóttinni með hundinum í Flugstöð Leifs Eiríkssonar „Ég er afar þreytt en mjög hamingjusöm og mér er létt. Þakka ykkur öllum fyrir allt saman,“ sagði Katarina að lokum við Víkurfréttir.