Frekari sameining sveitarfélaga nauðsynleg
– segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en hann er kominn í 300 funda „klúbbinn“
„Ég er núna talinn með í hópi bæjarfulltrúa sem eyddu miklum tíma í að vinna fyrir sveitarfélagið sitt. Markmið mitt er í sjálfu sér ekkert annað en að reyna að gera eitthvert gagn. Reynslan hjálpar mér auðvitað við það.“ segir Guðbrandur Einarsson, forseti bæjarstjórnar Reykjanesbæjar, en hann sat sinn 300. bæjarstjórnarfund 2. febrúar.
– Sérðu þig í næstu bæjarstjórn Reykjanesbæjar?
„Hvar ég sé mig í framhaldinu er óljóst. Ég hef aldrei haft einhverja stjórn á því sem bíður mín. Það er hins vegar fínasta hlutskipti að fá að sitja í bæjarstjórn Reykjanesbæjar.“
– Hvernig var svo 300. fundurinn?
„Hann var bara ljúfur. Varaforseti bæjarstjórnar afhenti mér blómvönd í tilefni dagsins og talaði hlýtt til mín sem mér þótti að sjálfsögðu afskaplega vænt um.
Einnig gafst mér ágætis tækifæri á þessum fundi til að fara vel yfir ástæður þess að Víkingaheimar voru seldir, sem mér þótti tilefni til í ljósi þeirrar umræðu sem fram hefur farið.“
– Hver er eftirminnilegasti fundurinn af þessum þrjúhundruð?
„Ætli sá fyrsti sé ekki einn sá minnisstæðasti. Mig minnir að Víkurfréttir hafi séð ástæðu til þess að fjalla um þann fund á sínum tíma. Margir fundir hafa hins vegar verið minnistæðir og mikilvægir. Nægir að nefna fundir í kringum söluna á Hitaveitu Suðurnesja, þegar herinn fór og síðan í hruninu. Allt voru þetta mál sem höfðu mikil og mótandi áhrif á þróun sveitarfélagsins okkar.“
– Viltu rifja aðeins upp hvenær þú byrjaðir og fyrir hvaða flokk?
„Ég gekk til liðs við Alþýðuflokkinn árið 1996 og var munstraður í fjölskyldu- og félagsmálaráð þegar flokkurinn bauð fram undir merkjum J-listans sem var sameiginlegt framboð Alþýðuflokks og Alþýðubandalags árið 1998. Ég mætti síðan á minn fyrsta bæjarstjórnarfund á árinu 2001 sem varabæjarfulltrúi.“
– Hafa skyldur og störf bæjarfulltrúa breyst mikið eða eitthvað á þessum tíma?
„Umfang og rekstur sveitarfélaga hefur vaxið mikið á þessum árum og sveitarfélög gegna nú miklu stærra hlutverki en áður í þjónustu við íbúa. Verkefni eru stöðugt að færast frá ríki til sveitarfélaga og það hefur auðvitað kallað á að bæjarfulltrúar þurfa að takast á við fleiri verkefni.“
– Telur þú að sameining Keflavíkur, Njarðvíkur og Hafna árið 1994 hafi verið gæfuspor og ef – hvernig þá?
„Já, ég tel að það hafi verið mikið gæfuspor og það hefði verið enn betra ef sameininginn hefði orðið enn stærri á þeim tíma. Það hefði gert Suðurnesin miklu sterkari bæði inn á við og út á við. Skilvirknin hefði orðið meiri og nýting fjármuna enn betri. Þróun í þessa átt heldur hins vegar áfram en mun taka einhvern tíma. Garður og Sandgerði hafa nú sameinast undir merkjum Suðurnesjabæjar og Sveitarfélagið Vogar er þessa dagana að skoða sameiningarkosti sem gætu leitt til frekari sameiningar sveitarfélaga á Suðurnesjum.
– Hvernig sérðu fyrir þér þróunina í sveitarstjórnarmálum á næstu árum? Málefnin eru alltaf að stækka og verða flóknari, er það ekki?
„Við sjáum ekki alveg fyrir þróunina. Rætt hefur verið um þriðja stjórnsýslustigið sem væri þá einhvers konar millistig milli ríkis og sveitarfélaga. Þróunin hefur hins vegar verið í þá átt að mynda landshlutasambönd sem ég tel ekki vera góða þróun. Það auðveldar ríkinu að sjálfsögðu að eiga samskipti við sveitarfélög í gegnum landshlutasamtök en það tefur fyrir sameiningu sveitarfélaga og hefur í för með sér verulegan lýðræðishalla. Fyrir mér er sameining sveitarfélaga algjör forsenda þess að þau geti sinnt þeirri mikilvægu þjónustu sem ætlast er til að þau sinni.“
– Þú hefur verið í framlínu meirihluta bæjarstjórnar Reykjanesbæjar síðan 2014 eftir að hafa verið í minnihluta á undan. Þetta hafa verið miklar áskoranir fyrir Reykjanesbæ, fyrst í fjármálunum og síðan með Covid-19, er það ekki?
„Jú, jú. Staðan var ekki burðug þegar nýr meirihluti tók við árið 2014 en allt hefur þetta tosast í rétta átt. Covid hefur ekki verið að hjálpa til en er sem betur fer tímabundið ástand sem unnið verður bug á. Sveitarfélagið mun komast yfir það.
Ég hef hins vegar meiri áhyggjur af þeim sem hafa ekki trygga afkomu vegna atvinnu- og tekjumissis af völdum Covid. Þar væri hægt að gera betur.“
– Hvað eru stærstu málin hjá Reykjanesbæ núna og í náinni framtíð?
„Stærstu málin til skemmri tíma eru auðvitað að takast á við afleiðingar af Covid en verkefnin framundan eru spennandi og mýmörg. Samfélagið breytist ört og sú stafræna umbreyting sem á sér stað skapar mörg tækifæri sem sveitarfélagið þarf að nýta og mun nýta. Það mun auðvelda íbúum að sækja sér þjónustu og stytta boðleiðir. Eins þarf að huga að uppbyggingu nýrra mannvirkja í framtíðinni, s.s nýjum íþróttamannvirkjum, skólahúsnæði og hjúkrunarheimili. Þá skiptir það máli að vel takist til við uppbyggingu innviða í Ásbrú.“
– Þú hefur verið orðaður við þingframboð hjá Viðreisn. Gengurðu með þingmanninn í maganum?
„Ég hef nú gengið til liðs við Viðreisn eftir að hafa verið utan flokka í rúman áratug. Viðreisn á eftir ákveða fyrirkomulag uppstillingar á lista fyrir næstu alþingiskosningar og því algjörlega óráðið hvað gerist. Ég loka hins vegar ekki á neitt. Reynsla mín á vettvangi sveitarstjórnarmála sem og innan verkalýðshreyfingarinnar ætti að geta nýst mér ágætlega vettvangi á landsmála ef til þess kæmi. Ef einhver áskorun um slíkt kæmi inn á borð til mín mun ég taka það til skoðunar. Ég tek á móti framtíðinni með opnum huga.“