Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
miðvikudaginn 7. júní 2023 kl. 14:54

Úr neðsta sæti í það efsta í þjónustu við eigendur rafmagnsbíla

Það er mjög ánægulegt að geta opnað hraðhleðslugarð hér á Aðaltorgi eftir þriggja ára vinnu og undirbúning. Þetta er einn liður í masterplaninu K64 sem Kadeco kynnti nýlega. Opnunin hérna er líka einn liður í að auka fjölbreytta þjónustu á Aðaltorgi, - fyrir heimamenn, gesti og ferðamenn,“ sagði Ingvar Eyfjörð, framkvæmdastjóri Aðaltorgs, einn af höfundum uppbyggingarinnar á svæðinu.

Hann bætti því við að með þessu skrefi hafi Suðurnesin farið úr neðsta sæti í þjónustu við eigendur rafmagnsbíla í það efsta. Ingvar segist líta björtum augum á framtíðina en næsti þáttur í frekari uppbyggingu við Aðaltorg er opnun einkarekinnar heilsugæslu í september.

Tómas Sigurðsson, forstjóri HS Orku segir að þegar málið kom upp á vinnslustigi í fyrirtækinu hafi fljótlega verið ákveðið að  fara í samstarf með einhverjum aðila sem hafði lausnir sem virka, þar sem t.d. sé hægt að greiða með kreditkorti. „Við vitum það að innan sex ára ætlum við bara að aka um á rafmagnsbílum og það er ekki langur tími. Insta Volt er er risa stór aðili á þessu sviði og fyrirtækið sýndi mikinn áhuga á samstarfi sem endaði með þessari opnun við Aðaltorg. Þetta er í raun erlend fjárfesting hér því breska fyrirtækið borgar þessar stöðvar og gerir langtíma leigusamning. Við erum með háleit markmið og við munum opnum 200 stöðvar víðs vegar um landið á næstu átján mánuðum,“ sagði Tómas.

„Eitt það fyrsta sem ég upplifði í þessu embætti var á opnum fundi í Keflavík þar sem vinir mínir á Suðurnesjum sögðu að það væri ekki hægt að hlaða rafmagnsbíla á Suðurnesjum. Staðsetningin hér við Keflavíkurflugvöll er mikilvæg. Bresku aðilarnir eru stórir og hafa reynslu. Samstarfið við þá hefur verið ánægjulegt og samvinna við vinaþjóð okkar Breta á sér langa og góða sögu sem mun skila báðum miklu,“ sagði Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra sem tók þátt í opnun hraðhleðslugarðsins þegar hann klippti á borða í tilefni dagsins.