Unnið með sköpunarsöguna og passíusálma
í Listasafni Reykjanesbæjar
Sýningarár Listasafns Reykjanesbæjar árið 2019 byrjar á einkasýningu á verkum Guðjóns Ketilssonar myndlistamanns. Sýningin nefnist „Teikn“ og er samsett úr 8 verkum sem öll fjalla með einum eða öðrum hætti um tákn, táknmerkingu og „lestur“ í víðasta skilningi þessara orða.
Listamaðurinn hefur unnið jöfnum höndum að gerð þrívíddarverka og teikninga eins og sjá má á sýningunni. Verk hans eru hvorttveggja í senn völundarsmíði og hugleiðingar um tilvist manns, þau spor sem hann markar sér í raunheimi með gjörðum sínum og þær aðferðir sem hann notar til að gera sig skiljanlegan í menningarlegu nærumhverfi sínu.
Mörg helstu verka Guðjóns eru uppfull af vísbendingum, táknum og tilvitnunum sem mynda eins konar huglæg rými sem áhorfandinn gerist þátttakandi í og upplifir á eigin skinni. Verkin á sýningunni „Teikn“ eru einmitt þess eðlis.
Guðjón er með allra markverðustu myndlistamönnum þjóðarinnar og hefur haldið yfir þrjátíu einkasýningar og tekið þátt í samsýningum um allan heim. Hann hefur hlotið margar opinberar viðurkenningar og gert verk sem finna má í á opnum svæðum á ýmsum stöðum. Hann tók m.a. þátt í samsýningunni „Þríviður“ í Listasafni Reykjanesbæjar árið 2008, en sú sýning var kjörin ein af bestu listsýningum þess árs af fjölmiðlum.
Verk hans er að finna í öllum helstu listasöfnum landsins. Er okkur það mikil ánægja og heiður að fá hann með verk sín hingað suður í Reykjanesbæ og vil ég þakka honum frábært samstarf. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson, listfræðingur, en auk hans ritar skáldið Sjón hugleiðingu um „fundið myndletur“ Guðjóns í sýningarskrána þar sem Sjón grennslast fyrir um hugsanlegan boðskap þess og er þeim báðum þakkað þeirra framlag.
Í meðfylgjandi innslagi er viðtal Víkurfrétta við Guðjón Ketilsson en listamaðurinn ræðir þar m.a. um verk sem hann vann upp úr sköpunarsögunni og passíusálmum og eru á sýningunni í Duus Safnahúsum.