Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
þriðjudaginn 2. júní 2020 kl. 09:43

Ungir nemendur í Orku og tækni hjá HS Veitum

Ánægjulegt samstarf HS Veitna og Heiðarskóla

Nemendum í 8.–10. bekk Heiðarskóla í Reykjanesbæ stóð í vetur til boða í fyrsta skipti ný námsgrein í valáfanga sem var Orka og tækni. Heiðarskóli fékk HS Veitur og Bílaleiguna Geysi til samstarfs og lauk námsgreininni með kynningu í aðveitustöð HS Veitna á Fitjum í Njarðvík í síðustu viku. Markmiðið með náminu var að kynna störf sem krefjast iðnmenntunar og kynna starfsemi HS Veitna sem er eitt stærsta fyrirtæki á Suðurnesjum, með fjölda starfsmanna í vinnu.

Guðmundur Helgi Albertsson, verkstjóri rafmagnsdeildar var annar tveggja starfsmanna HS Veitna sem kenndi nemendunum í vetur og segir hann að það hafi gengið vel. Það sé líka eitt af markmiðum fyrirtækisins að kynna starfsemina betur út á við og því hafi frumkvæði Heiðarskóla um samtarf verið tekið fagnandi.

Veitukerfi vatns og rafmagns

„Í náminu er farið yfir veitukerfi vatns og rafmagns en einnig er farið inn í grunnþekkingu á rafmagni. Þá fá nemendur að kynnast þeim verkfærum og tólum sem við erum að nota dags daglega. Þetta höfum við líka gert í árlegri starfakynningu sem farið hefur fram í íþróttahúsi Keflavíkur,“ segir Guðmundur Helgi Albertsson, verkstjóri rafmagnsdeildar.

Sjálfsögðu hlutirnir heima

Guðmundur segir að farið sé yfir þá sjálfsögðu þætti sem fólk vill hafa eins og vatn og rafmagn.

Til að geta notið þessara forréttinda er gott að kynnast þeim innviðum sem við erum að reka. Þetta var flottur hópur, gaman að fá að kynnast honum og ánægjulegt að það sé áhugi hjá ungmennum á því sem við erum að gera. Það skiptir okkur miklu máli.“

Hjá HS Veitum starfar mikill fjöldi iðnaðarmanna, margir rafvirkjar og pípulagningamenn en einnig vélvirkjar og tæknimenntað fólk. „Við fylgjumst með vatnsþrýstingi og háspennukerfi í tölvukerfi þar sem við sjáum stöðu á til að mynda spennunum í aðveitustöðinni á Fitjum (þar sem nemendur tóku síðasta kaflann í náminu). Þá eru snjalltæki sem eru að koma meira og meira inn og þá ekki síst fyrir notendur sem geta fylgst með eigin notkun,“ sagði Guðmundur.

Samstarf við atvinnulífið

Bryndís Magnúsdóttir, skólastjóri Heiðarskóla, segist afar ánægð með viðbrögð HS Veitna um samstarf en valáfanginn Orka og tækni var í boði fyrir nemendur í 8.–10. bekk. „Krakkarnir kynnast með þessum hætti þeim möguleikum sem eru í boði í sinni heimabyggð og líka þeirri menntaleið sem þarf að fara fyrir þau störf sem eru í boði hjá svona stóru fyrirtæki á svæðinu.

Tilgangur með valgreinum er að gera nemendum kleift að leggja eigin áherslur í námi miðað við áhugasvið og framtíðaráform. Þeir þurfa að horfa til framtíðar. Samstarfið við HS Veitur gekk afar vel og vonandi tekst okkur að búa til fleiri svona valgreinar í samvinnu við atvinnulífið,“ sagði Bryndís.