Uglan fer í Húsdýragarðinn
Uglan sem við sögðum frá hér á vf.is í gær fer í Húsdýragarðinn í Reykjavík í dag þar sem heilsufar hennar verður kannað áður en henni verður sleppt lausri að nýju út í náttúruna.
Það var heimilisfólkið að Hraunsvegi 6 í Njarðvík sem kom auga á ugluna í trjám utan við húsið. Hún virtist mjög þreytt, enda óveður búið að ganga yfir Reykjanesskagann þegar fuglinn fannst. Uglunni var komið í hús þar sem henni var gefið að borða og haft samband við Húsdýragarðinn. Þangað á uglan að fara í dag, þar sem ástand hennar verður metið.
Branduglur eru að mestu staðfuglar að talið er og verpa hér á láglendi aðallega í Þingeyjarsýslum, Eyjafirði og Borgarfirði, segir á islandsvefurinn.is. Stofninn er lítill, líklega ekki nema 100-200 varppör en 200-500 fuglar yfir vetrartímann og þá fara Branduglur víðar um landið. Kjörlendi hennar er gróurmikið mólendi og mýrar helst með trjágróðri. Þær lifa aðallega á músum og þá helst hagamúsum en einnig húsamúsum sem þær ná í við sveitabæi. Litlir vað- og spörfuglar og ungar eru einnig mikilvæg fæða Brandugla. Branduglur verpa 2-7 eggjum og varpið stendur frá miðjum maí fram í fyrri hluta júní. Branduglur er alfriðaðar.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson