Ugla sat á kvisti
Við greindum nýlega frá branduglu sem hraktist undan slæmu veðri að heimili við Hraunsveg í Njarðvík. Heimilisfólkið fangaði ugluna í kassa og kom henni í húsaskjól ásamt því að gefa henni að borða.
Branduglan hefur verið í umsjón Húsdýragarðsins í tæpan hálfan mánuð en ekkert amaði að uglunni annað en að hún var sársvöng og borðaði vel í vistinni í Húsdýragarðinum.
Það var síðan í dag sem komið var að því að veita uglunni frelsi. Það kom í hlut Sigurjóns Þórðarsonar að sleppa fuglinum en það var einmitt Sigurjón sem fangaði ugluna á sínum tíma í garðinum við húsið sitt á Hraunsveginum, eins og greint hefur verið frá hér á vef Víkurfrétta.
Sigurjón valdi Sólbrekkuskóg til að sleppa uglunni, enda aðstæður þar allar hinar bestu. Á svæðinu á að vera nægt æti og stutt í Seltjörn. Skjólgóð skógræktin er einnig kjörlendi fyrir ugluna, sem hefur þó síðasta orðið um hvar hún kýs að setjast að til framtíðar en uglur eru ekki algengar á Suðurnesjum.
Ljósmyndir og myndband: Hilmar Bragi Bárðarson