Ugla kíkti í heimsókn á Hraunsveginum (Video)
Heimilisfólkið að Hraunsvegi 6 í Njarðvík horfðist í augu við sjaldséðan gest í trjánum fyrir utan íbúðarhúsið. Brandugla var komin í heimsókn og var máttfarin eftir óveðrið sem gekk yfir Reykjanesskagann í gær.
Að sögn Sigurjóns Þórðarsonar var auðvelt að nálgast ugluna í hekkinu utan við húsið og horfði hann í augu uglunnar úr aðeins nokkurra sentimetra fjarlægð.
Uglan var fönguð og henni komið inn í bílskúr þar sem henni var gefið að borða. Við það hresstis hún mikið og hefur flogið nokkrar ferðir í bílskúrnum.
Haft var samband við húsdýragarðinn í Reykjavík og þar á bæ vilja menn ólmir fá ugluna til að kanna heilsufar hennar áður en henni verður sleppt aftur út í íslenska náttúru.
Branduglur eru að mestu staðfuglar að talið er og verpa hér á láglendi aðallega í Þingeyjarsýslum, Eyjafirði og Borgarfirði, segir á islandsvefurinn.is. Stofninn er lítill, líklega ekki nema 100-200 varppör en 200-500 fuglar yfir vetrartímann og þá fara Branduglur víðar um landið. Kjörlendi hennar er gróurmikið mólendi og mýrar helst með trjágróðri. Þær lifa aðallega á músum og þá helst hagamúsum en einnig húsamúsum sem þær ná í við sveitabæi. Litlir vað- og spörfuglar og ungar eru einnig mikilvæg fæða Brandugla. Branduglur verpa 2-7 eggjum og varpið stendur frá miðjum maí fram í fyrri hluta júní. Branduglur er alfriðaðar.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson