Mánudagur 2. desember 2019 kl. 09:17

Tvíburarnir Etna og Enok lenda í ævintýrum með jólasveinum

- Sigríður Etna Marinósdóttir með myndskreyttar barnabækur fyrir börn, ömmur og afa.

Sigríður Etna Marinósdóttir er 28 ára rithöfundur sem er fædd og uppalin á Tálknafirði. Hún er yngst níu systkina. Sjálf á hún tvær stelpur og býr ásamt þeim og manninum sínum í Grindavík.
„Þegar ég var lítil stelpa þá las ég mjög mikið. Ég var í stórum systkinahópi og það var mikið líf og fjör á heimilinu. Ég segi að ég sé með haus sem stoppar aldrei og mér finnst gott að vera ein með sjálfri mér að lesa. Þegar ég var í grunnskóla þá var þar kennari sem sagði að ég yrði rithöfundur, því ég hafði gaman af því að skrifa sögur,“ segir Sigríður Etna þegar hún er spurð hvernig rithöfundurinn í henni hafi vaknað.

„Þegar ég var í framhaldsnámi þá tók ég áfanga um barnabókmenntir og þá kviknaði áhuginn á góðum barnabókmenntum. Ég var búin að kaupa mikið af barnabókum áður en ég átti stelpurnar mínar og maðurinn minn er alltaf að segja að nú sé komið gott. Ég held hins vegar að það sé aldrei komið nóg.

Árið 2014 eignaðist ég eldri stelpuna mína og foreldrar mínir höfðu flutt í sveit fyrir vestan. Við vorum duglegar að fara saman vestur og ég sá að henni þótti gaman í sveitinni. Ég sá að við vorum heppnar að fá að upplifa sveitina en það væru ekki öll börn svo heppin. Þá ákvað ég að láta vaða og skrifa bók um þessa hefðbundnu íslensku sveit með smá auka „tvisti“ og fleiri dýrum eins og voru til dæmis í sveitinni hjá mömmu og pabba, sem voru með býflugur.

Með seinni bókina, þá fór ég á bókasafnið fyrir jólin og ætlaði að fá jólabækur að láni. Ég komst hins vegar að því að úrvalið af þeim var alls ekki mikið. Þá kom hugmyndin um að skrifa jólabók.“



Söguhetjurnar, Etna og Enok, hverjar eru þær?

„Etna og Enok eru systkini og nöfnin á þeim urðu til þegar ég var í háskólanámi. Ég heiti Sigríður Etna og það var strákur með mér í náminu sem heitir Hjalti Enok. Vinkona mín sagði að ef hún myndi eignast tvíbura þá ættu þeir að heita Etna og Enok. Ég fór svo að hugsa söguhetjur og ákvað að hafa þá tvíbura með þessum nöfnum.“

Sigríður Etna segir að fyrri bókin sé með einfaldari texta sem væri bæði auðveldur fyrir foreldra að lesa fyrir börnin sín og einnig fyrir börn sem eru að byrja að lesa. Nýja bókin er hins vegar með helmingi meiri texta og þar er m.a. að finna samtöl á milli Etnu og Enoks.

Etna og Enok hitta jólasveinana var kynnt í útgáfuhófi á fjörugum föstudegi í Grindavík í síðustu viku. „Þetta er hugmynd sem ég fékk frá sjálfri mér. Ég vildi sem barn hitta jólasveinana. Bókin spannar öll íslensku jólin. Etna og Enok setja skóinn út í glugga og í hverri opnu mætir nýr jólasveinn til leiks og undir lokin komast systkinin í Grýluhellinn og hitta þar alla jólasveinana, jólaköttinn og Grýlu og Leppalúða. Þá er fjallað um bæði aðfangadag og þrettándann. Þetta er ekki bara saga. Bókin er mikið myndskreytt og þú hefur átt í samstarfi við listakonu sem hefur heldur betur skreytt bókina.

„Já, ég er með ansi færa listakonu, Freydísi Kristjánsdóttur. Foreldrar okkar eru systkini og hún hefur unnið í mörg ár við að myndskreyta bækur. Ef það eru bækur með myndum eftir hana, þá laðast ég að þeim og myndunum hennar, því hún er ótrúlega fær.“

Spurð fyrir hvaða aldursskeið bækurnar séu, segir Sigríður Etna að þar sem báðar bækurnar séu vel myndskreyttar þá sé auðvelt að tala út frá myndunum og því geti bækurnar hentað börnum frá tveggja ára aldri og jafnvel alveg til átta eða níu ára. Hún segir ömmur og afa hafa verið dugleg að kaupa báðar bækurnar til að lesa fyrir barnabörnin. Sigríður Etna segist glöð með viðtökurnar sem bækurnar hafi fengið og spurð hvort framhald verið á, þá svarar hún játandi. Etna og Enok komi þó ekki á næsta ári, því þá sé hins vegar væntanleg barnabók á öðrum nótum sem gerist hér suður með sjó.