Tölvur taka yfir skólabækurnar
„Það er bara allt að gerast í Gerðaskóla. Við erum með svo flott starfsfólk sem er alltaf tilbúið til að skoða nýjungar með það fyrir augum að bæta skólastarf. Auðvitað erum við með það gamla með en erum alltaf að þróa okkur hægt og rólega í tækninni, að samþætta námsgreinar og ýmislegt,“ segir Eva Björk Sveinsdóttir, skólastjóri Gerðaskóla.
Er það ekki áskorun fyrir grunnskóla á Íslandi í dag að vera með börn af mörgum þjóðernum?
„Jú, en það er bara svo skemmtilegt og lífgar upp á allt starfið. Auðvitað er það áskorun þegar það kemur barn sem talar enga íslensku eða ensku en hér finnur fólk út úr hlutunum.“
Maður sér hverja viðbygginguna af annarri hér við skólann. Hefur hann verið að vaxa stöðugt í gegnum tíðina?
„Já, í rauninni. Ég kom hingað til starfa fyrir fimm árum síðan og það eru tuttugu fleiri nemendur í dag en þá. Það er einn bekkur á ekki lengri tíma, þannig að það er góð fjölgun.“
Hver er nemendafjöldinn í dag?
„Við erum með um 250 nemendur í dag og það eru um 60 starfsmenn við skólann.“
Er Gerðaskóli með einhverja sérstaka stefnu þegar kemur að tækninýjungum í kennsluháttum?
„Við erum að búa til nýtt tæknirými þar sem við getum verið með þróun á allan hátt. Það eru allir nemendur með tæki. Nemendur í 1. til 6. bekk eru með iPad en nemendur í 7. til 10. bekk eru með Chromebook-tölvur. Þegar þú segir stefna, þá finnst mér þetta þurfa að koma frá kennurunum, hvað vilja þeir? Þeir vilja fara í þessa átt og þróa sig þarna. Við erum hægt og rólega að fikra okkur áfram.“
Er kennslubókin í landafræði og stærðfræði að detta inn í stafrænt form?
„Það kemur að því. Við erum ennþá aðeins með bækur en verkefnavinna fer mikið fram í tölvunni. Þetta eru bæði tölvur og bækur en ég held að við vitum það öll að við erum að þróast áfram í tækninni.“
Hver eru viðbrögðin hjá krökkunum hvað það varðar? Þau eru að grípa þetta mjög hratt, er að ekki?
„Jú, jú. Þau eru miklu klárari en við. Þess vegna er svo gaman að við fórum fljótlega eftir að ég byrjaði hérna í gang með snillitíma á miðstigi. Það eru tímar þar sem nemandi fær að ráða hvað hann vill læra og rannsaka. Það er svo gaman þegar nemandinn sjálfur fær að velja. Við erum kannski með nemanda í grunnskóla í tíu ár sem er frábær söngvari og það veit enginn að hann kunni að syngja. Með því að draga fram styrkleika hjá öllum í svona vinnu, þá komumst við að þessu. Svo erum við núna á unglingastigi að samþætta námsgreinar og vinna með verkefni. Það er mikið í tölvunni og þar eru grunnverkefni sem allir þurfa að gera og skila af sér. Svo erum við með meistaraverkefni sem þau geta svo fengið framúrskarandi fyrir ef þau kjósa svo.“
Var mikill undirbúningur fyrir þennan afmælisdag þar sem 150 ára afmæli Gerðaskóla var fagnað?
„Við fórum að hugsa þetta í febrúar og settum þá saman nefnd í skólanum. Við ætluðum nú að byrja þá en ef ég á að vera alveg hreinskilin þá byrjuðum við ekki fyrr en í ágúst. Þá fór allt á fullt og við höfum verið að síðan þá. Við höfum unnið þetta jafnt og þétt og fengið muni frá bæjarbúum sem tengjast skólanum. Hingað komu svo bæði gamlir kennarar og nemendur. Það var gaman að hitta allt þetta fólk og maður sá að það skein ánægja úr andlitum fólks að rifja upp gamla tíma og ótrúlega gaman að fá svo marga hingað í dag,“ sagði Eva Björk, skólastjóri, í samtali við Víkurfréttir í lok afmælishátíðarinnar.