Tólf á sjúkrahús úr tveimur slysum á Reykjanesbraut
Tólf manns voru fluttir á sjúkrahús eftir tvö umferðarslys á Reykjanesbraut nú síðdegis. Enginn slasaðist alvarlega. Þrír sjúkrabílar frá Brunavörnum Suðurnesja voru sendir á vettvang auk tækjabíls. Þá voru fimm sjúkrabílar og tveir tækjabílar sendir frá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Þá fór allt tiltækt lögreglulið frá Suðurnesjum í útköllin tvö.
Tilkynnt var um árekstur tveggja bíla í Hvassahrauni og allt tiltækt lið frá Suðurnesjum sent þangað. Á leiðinni í það útkall var tilkynnt um annað slys á Strandarheiði. Sjúkrabílarnir og tækjabíllinn frá Keflavík fóru því í það slys en sjúkrabílar og tækjabílar frá höfuðborgarsvæðinu sinntu slysinu í Hvassahrauni.
Samkvæmt lögreglu á vettvangi í Hvassahrauni voru tíu manns fluttir á sjúkrahús úr því slysi en úr slysinu á Strandarheiði var ökumaður fluttur slasaður á sjúkrahús en barn sem var í bílnum virtist hafa sloppið óslasað en fór einnig á sjúkrahús til skoðunar.
Ekki kom til að loka þyrfti Reykjanesbrautinni nema í örfáar mínútur á meðan bílflökum var komið á dráttarbíla.
Mikil hálka á á vettvangi slysanna en unnið var að því að salta Reykjanesbrautina nú síðdegis eins og m.a. má sjá í meðfylgjandi myndbandi.
Þessi bifreið fór tvær veltur á Strandarheiði og hafnaði langt utan vegar.
Áreksturinn í Hvassahrauni var harður og voru tíu manns fluttir á sjúkrahús úr tveimur bílum.
Allur tiltækur floti saltara var sendur á Reykjanesbraut síðdegis, enda brautin flughál.
Myndir: Hilmar Bragi Bárðarson