Fimmtudagur 19. apríl 2012 kl. 18:55

Þúsundir á opnum degi á Ásbrú - myndband


Mikill fjöldi mætti á opinn dag á Ásbrú í Reykjanesbæ í dag. Ætla má að gestir hafi verið á bilinu 10.000 - 15.000 talsins en hátíðarhöld dagsins fóru fram í kvikmyndaverinu á Ásbrú, í Keili og einnig Eldey, sem er frumkvöðlasetrið á Ásbrú.

Á útisvæði voru leiktæki og tækjabúnaður lögreglu og skökkviliðs. Stærsti slökkvibíll landsins, gömul bandarísk herþota, fornbílar og mótorhjól glöddu augu gesta.
Innandyra var amerísk stemmning og karnival. Draugahús gerði lukku og það gerðu einnig hoppikastalar og fleiri skemmtileg leiktæki.

Almenn ánægja var hjá þeim sem héldu opna daginn með það hvernig til tókst með dagskrá dagsins.

Í meðfylgjandi myndbandi eru myndskeið frá hátíðarhöldum dagsins. Fremst eru myndir úr Keili þar sem grillað var fyrir gesti og starfsmenn NASA, bandarísku geimferðastofnunarinnar voru með kynningu á því verkefni sem þeir eru að vinna frá Keflavíkurflugvelli. M.a. var bein útsending á samtali geimfara sem staðsettur er á Ásbrú og flugmanns sem staddur var í 55.000 feta hæð yfir Grænlandsjökli.

Þá eru hér myndir frá karnivalinu í kvikmyndaverinu og einnig frá útisvæðinu við kvikmyndaverið þar sem stærsti slökkvibíll landsins og gömul F-4E Phantom II herþota voru.