„Þurfum að stoppa Walker og Pavel,“ sagði Sigurður Gunnar
„Við hættum bara að gera það sem við gerðum vel, bæði í vörn og sókn,“ sagði Sigurður Gunnar Þorsteinsson, leikmaður Keflavíkur, en Keflavík tapaði fyrir KR 87-79 í fyrsta leik undanúrslita Iceland Express deildar karla í körfuknattleik.
„Það klikkaði allt. Við þurfum að laga bæði sóknar og varnarleikinn og spila meira saman,“ sagði Sigurður.
Pavel Ermolinskij og Marcus Walker skoruðu samtals 57 stig af 87 sem KR skoraði. „Við þurfum að stoppa Walker og Pavel en þeir skora flestu stigin þeirra og þess vegna þarf að stoppa þá.“
Guðjón Skúlason var ekki ánægður með sína menn í lok leiks. „Þeir mættu okkur og spiluðu fast en við guggnuðum á því sem við ætluðum að gera. Við fórum frá okkar hlutum og hleyptum þeim aftur inn í leikinn,“ sagði Guðjón.
„Í endan vorum við ekki að framkvæma varnarleikinn eins og við ætluðum okkur. Þeir fengu of mikið af sóknarfráköstum og of mikið af sénsum. Við misstum þá framhjá okkur mjög oft sem skapar vandræði í vörninni þannig að það er eitthvað sem við þurfum að laga.“
Næsti leikur liðanna fer fram í Toyotahöllinni á morgun kl. 19:15 þar sem Keflvíkingar þurfa sigur ef þeir ætla ekki að missa KR langt á undan sér. „Við þurfum klárlega sigur á heimavelli og við munum taka þá, engin spurning,“ sagði Guðjón.
Ljósmyndir frá leiknum má sjá á ljósmyndavef Víkurfrétta með því að smella hér.
[email protected]
Sigurður Gunnar Þorsteinsson náði sér ekki á strik í leiknum.