Páll Ketilsson
Páll Ketilsson skrifar
mánudaginn 5. október 2020 kl. 09:35

Þreytandi að vera með grímu allan daginn

segir Guðlaug Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem dreifir grímum til nemenda alla morgna. Yfir 1000 nemendur á haustönn og kennarar yfir eitthundrað.

Skólastarf í Fjölbrautaskóla Suðurnesja gengur vel á veirutímum en nemendur og kennarar þurfa allir að bera grímur. „Þetta gengur í rauninni bara ótrúlega vel en þetta er erfitt. Ég stend hér á morgnana við innganginn og dreifi grímum til nemenda. Þeir hafa tekið því vel í ljósi ástandsins og láta sig hafa það þó það sé ekki þægilegt að vera með grímu allan daginn. Sama má segja með kennara. Það er þreytandi að vera með grímuna en við viljum halda skólastarfinu úti og þá skiptir þetta miklu máli,“ sagði Guðlaug Pálsdóttir, aðstoðarskólameistari FS, þegar fréttamenn Víkurfrétta kíktu í skólann í byrjun vikunnar.

Guðlaug segir að starfið í skólanum gangi betur þegar allir eru á staðnum, nemendur og kennarar. Um eitt þúsund nemendur stunda nám á haustönn, kennarar eru yfir eitt hundrað og þá var nýlega ákveðið að bjóða aukalega upp á nám í þremur verknámsgreinum seinni part dags; smíðar, rafvirkjun og hárgreiðslu. Það stendur öllum til boða, ekki bara fólki á Suðurnesjum. Þegar VF ræddi við Guðlaugu var að fyllast í þær og því ljóst að nemendafjöldi fer vel yfir eitt þúsundið.

Guðlaug segir að þetta gangi betur þegar allir eru á staðnum og því hafi þetta verið mikil áskorun í vor þegar nánast engir mættu í skólann og þurftu að sinna náminu að heiman. „Okkur var hent í djúpu laugina í vor þegar þessu var breytt í fjarkennslu. Núna erum við með blandaðan skóla getum við sagt. Við erum með staðkennslu fyrir nýnema, starfsnám og verknám og fjarnám fyrir þá sem eru komnir lengst. Við réðum manneskju núna til að spritta og sótthreinsa alla snertifleti í skólanum, allan daginn, því við viljum fá nemendur í skólann. Það er samt mjög erfitt fyrir kennara að vera með tvöfalt kerfi. Þess vegna skoðum við slík tilfelli alveg sér. Með samstilltu átaki er þetta þó að hafast.“

Nemendur sem VF ræddi við sögðu námið ganga ágætlega og það væri betra að mæta í skólann en að vera í fjarnámi. Þó var ein sem sagðist vera til í að læra frekar í fjarnámi. Ástandið vegna Covid-19 kæmi þó niður á félagslífinu. „Við bara mætum í skólann og förum lítið á sal. Það eru flestir að huga að eigin heilsu og eru því ekki að sækja í fjölmenni. Ég mæti bara í tíma og fer svo heim,“ sagði Arnór Daði Jónsson, nemandi í rafgreinum.

Grímuskylda í Fjölbrautaskólanum