Þotusveit dælir dollurum til Suðurnesja
Flugsveit með tíu F15 orrustuþotum og tveimur KC135 eldsneytisbirgðavélum kom til Keflavíkurflugvallar í gær. Mikil uppgrip fyrir Suðurnesjamenn fylgja sveitinni sem kemur sem vítamínsprauta inn í samfélagið á Suðurnesjum, með fulla vasa af dollurum.
Með flugsveitinni er 175 manna starfslið sem kaupir ýmsa þjónustu á Suðurnesjum á meðan dvölinni stendur en bandaríska flugsveitin sinnir loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins hér á landi frá 6. – 24. september. Má þar nefna allar máltíðir, eldsneyti og ýmsa aðra þjónustu. Kostnaður íslenska ríkisins er 12 milljónir króna en sú fjárhæð mun skila sér margfalt til baka inn í samfélagið.