Thorsil mun nota aðrar aðferðir við gangsetningu
- Áætlað er að um 130 manns vinni við kísilverið og að starfsemi hefjist í júní 2019
Forráðamenn Thorsil kísilversins segja að við gangsetningu ofna verksmiðjunnar verði notast við aðrar aðferðir en gert var hjá United Silicon. Hákon Björnsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins segir að útblásturskerfi Thorsils sé frábrugðið kerfi United. Til dæmis fari reykur í gegnum háa skorsteina og dreifing rokgjarnra efna verði því mun meiri. Þetta kom fram á kynningarfundi vegna starfsleyfisumsóknar í Duus-húsum í Reykjanesbæ í gær.
Hákon fór yfir mörg mál varðandi uppbyggingu og undirbúning verksmiðjunnar. Nú þegar hefur undirbúningur kostað um 2 milljarða króna en heildarkostnaður verksmiðjunnar verður um 30 milljarðar. Áætlað er að um 130 manns vinni við hana og að starfsemi hefjist í júní 2019. Hann segist skilja áhyggjur fólks en er bjartsýnn á að hlutirnir muni ganga vel hjá fyrirtækinu.
Víkurfréttir ræddu við Hákon eftir fundinn.
Hákon á fundinum í Duus. Á veggnum má sjá teikningu af fyrirhugaðri verksmiðju í Helguvík. Vf-mynd/pket.