Þetta er mikið sjokk
Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, segir á fjórða þúsund félagsmanna VSFK með uppsögn eða í skertu starfshlutfalli. Fólk sýni ástandinu skilning og er með von um að því ljúki fyrr en seinna.
„Ástandið er vægast sagt mjög slæmt en maður er alltaf að reyna að halda í einhverja bjartsýni og vonar að þetta fari að lagast. Við fengum skell með falli WOW fyrir um ári síðan en það var bara lítill skellur miðað við núna. Svæðið okkar mátti alls ekki við þessu. Þetta er mikið sjokk,“ segir Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómannafélags Keflavíkur og nágrennis, en á fjórða þúsund félagsmanna þessa stærsta stéttarfélags á Suðurnesjum eru atvinnulausir eða í skertu starfshlutfalli.
Guðbjörg segir að það hafi verið mjög sérstakt að upplifa svona miklar sveiflur á síðustu árum. Fólksfjölgun hefur verið gríðarleg og lítið eða nánast ekkert atvinnuleysi. Þúsundir útlendinga á svæðinu við störf. Það vantaði starfsfólk í hin ýmsu störf hjá ferðaþjónustunni og fyrirtækjum tengdum henni en svo kom veiran og breytti öllu í einu vetfangi. Hvernig var fólk að taka þessu?
Spurt og svarað hjá VSFK
„Það var lokað á skrifstofu VSFK á með veiran gekk harðast yfir þannig að maður var ekki að hitta fólkið sem margt var í sjokki yfir ástandinu. Margir voru hins vegar mjög duglegir að senda skilaboð og við vorum í miklu sambandi við okkar félagsmenn. Félagsmenn sendu okkur skilaboð eða tölvupóst og voru mjög duglegir að spyrja út í ýmsa hluti og þætti. Við vorum orðin eins og upplýsingamiðstöð, meðal annars fyrir Vinnumálastofnun en hún var auðvitað orðin miðdepill í ástandinu. Það sem maður tók helst eftir var að fólk sýndi þessu ástandi miklu meiri skilning því vanalega verður fólk mjög reitt þegar það missir vinnuna. Umhverfið og líðan fólks var einhvern veginn allt öðruvísi. Sama gerðist eftir bankahrunið þegar margir þurftu að fara í hlutabótastarf og þannig er þetta núna. Fólk hefur miklu meiri skilning núna. Það er enginn dæmdur fyrir að vera ekki í vinnu. Margir hugsa líka og vona að þetta ástand vari ekki lengi.
Margir útlendingar enn á svæðinu
– Nú hafa mjög margir útlendingar verið í vinnu á Suðurnesjum. Hvernig er staðan á þeim?
Einhver hluti þessa hóps er ennþá hér og bíður eftir vinnu. Það er mjög misjafnt. Sumir fóru heim til Póllands á meðan það var hægt. Mjög stór hópur af útlendingum er mjög sáttur hér á landinu. Við óttumst auðvitað að það verði til stór hópur sem verði atvinnulaus næstu árin. Það er áhyggjuefni. Það er samt líklegra að fyrirtækin taki inn starfsfólkið sem það var með vegna reynslu þess þegar hjólin fara að snúast aftur. Það fer líka eftir ástandinu í heimalandi þessa fólks sem er oft verra en hér á Íslandi. Þetta er því líka allnokkur óvissa en margir útlendingar sjá framtíðina á Íslandi en ekki í sínu heimalandi.
Á fjórða þúsund án vinnu eða í skertu
– Hvernig eru nýjustu tölur í fjölda atvinnulausra og í skertu hlutfalli?
Eftir marsmánuð voru um 1.300 manns hjá okkur í VSFK komnir á skrá hjá Vinnumálastofnun. Nú tel ég að það séu um 2.000 manns atvinnulausir en ríflega 1.000 í hlutabótaleiðinni. Félagar okkar eru um 4.800 og því er þetta ansi stór hluti sem er atvinnulaus eða í skertu starfshlutfalli og það eru ekki öll kurl komin til grafar. Við gætum átt von á fleiri uppsögnum. Það er mjög erfitt að spá í stöðuna núna, óvissan er mjög mikil en ég held þó í vonina um að staðan eigi eftir að lagast þó svo það sé einhver hætta á seinni bylgju eða næstu bylgju eins og sóttvarnarlæknir sagði. Ég vona þó að þetta sé bara að ganga yfir. Það hefur gerst í heimsfaröldrum að þeir hafi hreinlega gengið yfir.
– Einhverjar sérstakar aðgerðir fyrir fólkið hjá félaginu?
Já, við höfum sett aukið fjármagn í styrki og hækkað prósentu í styrkjum ef fólk vill sækja námskeið auk fleiri aðgerða sem við höfum farið í. Félagið reynir eins og það getur að koma til móts við fólkið á erfiðum tímum. Við erum með reynslu í því. Í fyrra settum við mörg námskeið í gang eftir gjaldþrot WOW og það gekk vel. Við vorum ekki búin að jafna okkur á því þegar veiran kom.
– Hvað með aðgerðir ríkisvaldsins?
Það er margt gott sem hefur verið gert en það þarf að gera svo miklu meira. Ég veit þó að það hefur verið settur á stofn hópur til að skoða stöðu Suðurnesja sérstaklega. Nú er tækifærið að laga stöðu ríkisstofnana hvað varðar fjárframlög til þeirra sem eru á Suðurnesjum. Það er margoft búið að benda á ranga stöðu í þeim málum, hvort sem það er til heilbrigðisstofnunar eða skólamála þá er ljóst að þetta þarf bara að laga og nú er rétti tíminn til þess. HSS er vannýtt stofnun og gæti boðið upp á svo miklu meira en nú er gert. HSS hefur alla burði til þess, það þarf að laga heilsugæsluna og koma skurðstofum aftur í gang. Skólarnir á Suðurnesjum eru mikilvægir á Suðurnesjum og styrking þeirra væri mjög mikilvæg. Aðalmálið er þó að búa til fleiri fjölbreytt störf. Haustið verður áhyggjuefni því staðan gæti lagast tímabundið með sumarstörfum. Þegar haustið kemur munu líklega margir koma á atvinnuleysisskrá, fólk sem er komið með uppsögn hjá sínu fyrirtæki.
Svaraði félagsmönnum í rúminu heima
Guðbjörg var ein af þeim sem veiktist af kórónuveirunni en hún segist ekki hafa orðið alvarlega veik.
Ég fór örugglega betur út úr þessu en margir aðrir. Ég þurfti þó að vera í einangrun því fjölskyldan mín veiktist ekki. Bestu dagarnir voru virku dagarnar því þá gat ég unnið á venjulegum vinnutíma. Ég lokaði mig inni í herbergi en gekk þó ágætlega að sinna mínu starfi í tölvunni, bara uppi í rúmi heima. Þetta hefur kennt okkur að það er vel hægt að sinna ýmsum störfum heima við eða annars staðar en á skrifstofu. Það hefur ýmislegt gott gerst á veirutímum sem við munum nýta okkur í framtíðinni. Það er engin spurning.
– Hvað með átök á vinnumarkaði í miðjum faraldri?
Það er engin óskastaða en við getum ekki gefið eftir launakröfur og réttindi fólks þó veira gangi yfir. Það er ekki sanngjarnt að fólkið með lægstu launin taki mesta skellinn. Við munum ekki gefa eftir þar. Þetta fólk er í stórum hópum að verða fyrir kjaraskerðingu eins og með hlutabótaleiðinni, það eru flestir að lækka í launum með því.
Fólk hefur sýnt ástandinu skilning, verið sveigjanlegt að breyta vinnutíma og vinnustað en það er ekki þægileg staða að standa í kjaraviðræðum á svona tímum.
Fjölbreyttara atvinnulíf
Guðbjörg segir að það megi draga lærdóm af ástandinu og það hafi komið berlega í ljós að atvinnulífið er of einhæft á Suðurnesjum.
Það sem við getum tekið með okkur er að það þarf að vera fjölbreyttara atvinnulíf á Suðurnesjum. Það er stærsta atriðið og við verðum að fara að vinna að því að leiðrétta þá skekkju. Við getum ekki bara treyst á ferðaiðnaðinn. Fiskvinnslan er t.d. horfin úr Reykjanesbæ en er þó til staðar og sterk í Grindavík og Sandgerði. Við þurfum að dreifa eggjunum í fleiri körfur. Við þurfum að huga að nýsköpun og horfa til framtíðar hvað varðar vöxt í atvinnulífinu, ekki bara opna fleiri bílaleigur eða veitingastaði sem tengjast mikið ferðaþjónustunni þó svo slík starfsemi þurfi líka að vera til staðar. Þetta er svo sem ekki ný bóla á Suðurnesjum. Við vorum með varnarliðið sem einn stærsta vinnuveitanda svæðisins og það var enn eitt áfallið þegar það fór, rétt fyrir bankahrun.
Þarf að fara í mikla vinnu til að sannfæra fólk um nýtt kísilver
Guðbjörg brosir ekki þegar hún er spurð út í störf sem geta skapast ef starfsemi kísilverksmiðju í Helguvík hefst á nýjan leik.
„Þetta er óþægileg umræða. Auðvitað viljum við fleiri störf en þessi störf hjá kísilverksmiðju eru mörg sérhæfð. Verða þau fyrir Íslendinga eða þurfum við að fá þjálfað vinnuafl til að sinna þeim? Við vitum öll af mengun, hávaða og leiðindum sem fylgdi starfsemi fyrri verksmiðju. Það þyrfti að bæta mikið allan aðbúnað og sjálfa verksmiðjuna.
– Hafa eigendur verksmiðjunnar verið í sambandi við ykkur?
Ekki núna nýlega. Við fylgjumst að sjálfsögðu með stöðunni. Ef verksmiðja fer í gang er mikilvægt að staðið verði vel að samningum við starfsfólk. Því var óbótavant hjá fyrri eiganda. Þeir þurfa að fara í mikla vinnu til að sannfæra fólk á Suðurnesjum um þetta verði ekki eins og hjá fyrri eiganda. Það er mikil andstaða fyrir þessari starfsemi held ég í Reykjanesbæ.
Markaðsátak fyrir Suðurnesin
– Þú vonar sem sagt að flugvélarnar fari í loftið aftur?
„„Við viljum fara að sjá það og vinnumarkaðinn í gang. Sjá fólk í bænum, meira líf. Maður er svolítið hræddur um að Suðurnesin verði útundan í ferðaátakinu. Ég held að margir, og líka heimamenn, geri sér ekki grein fyrir því hvað Reykjanesið er flott. Við þyrftum að fara í átak um það að það sé gaman að koma á svæðið, hér er allt til alls, gisting, tjaldsvæði, matur og afþreying. Ég held að það séu alltof margir sem viti ekki af því. Gott markaðsátak fyrir Suðurnesin væri vel þegið núna, sagði Guðbjörg Kristmundsdóttir, formaður Verkalýðs- og sjómanafélags Keflavíkur og nágrennis í viðtali við Víkurfréttir og hún vonar að flugvélarnar fari í loftið aftur sem fyrst.