Þægileg innivinna og fjölskylduvænn vinnutími
– Hár meðalaldur netagerðarmanna og lítil nýliðun
Karlarnir hjá Veiðarfæraþjónustunni í Grindavík taka daginn snemma. Þeir eru byrjaðir að vinna klukkan sjö á morgnana og farnir heim hálf fjögur á daginn þegar ekki eru tarnir. „Við viljum hafa þetta fjölskylduvænt þó svo við séum komnir á þennan aldur,“ segir Hörður Jónsson framkvæmdastjóri.
Hjá Veiðarfæraþjónustunni starfa sex karlar sem allir hafa áratuga langan starfsaldur í faginu. Þrír af starfsmönnum fyrirtækisins hófu störf í faginu sem unglingar og Hörður var sjálfur tíu ára þegar hann byrjaði að fást við veiðarfæri.
Veiðarfæraþjónustan er alhliða þjónustufyrirtæki í veiðarfærum. Þar eru framleidd ný veiðarfæri og gert við gömul. Þau eru hönnuð og teiknuð frá grunni. Hörður orðaði það svo að hann seldi allt frá minnstu krókum upp í stærstu flottroll.
Veiðarfæragerð er í raun þægileg innivinna en verkstæðin eru yfirleitt mjög vel útbúin. Meðalaldurinn í greininni er einnig mjög hár og endurnýjun lítil. Hörður er í fagráði netagerðar og þar hafa verið teknar saman tölur sem sýna að meðalaldur netagerðarmanna er um 54 ár. Mjög fáir eru að læra iðnina í dag þar sem iðnnám er á útleið á kostnað bóknáms. Fljótlega þarf það að gerast að yngra starfsfólk komi inn og leysi af hólmi þá sem eldri eru og eru að komast á eftirlaun. Hættan sé að iðngreinin færist úr landi en það megi ekki gerast, því veiðarfæri þurfi ávallt mikla þjónustu.
Hörður segir að netagerðin sé vinna sem henti öllum, bæði konum og körlum. Í faginu sé mikil handavinna en tækninýjungar hafa ekki orðið miklar á síðustu árum. Hjá Veiðarfæraþjónustunni er þó vél sem setur í nálar og þar er víramælingavél og upphringari. „En þetta er mikil prjónavinna,“ segir Hörður.
Síðustu daga hafa starfsmenn Veiðafæraþjónustunnar verið að sinna togurum frá bæði Þorbirni og Brimi, sem eru í þjónustu hjá fyrirtækinu. Þegar Víkurfréttir kíktu í heimsókn í vikunni var verið að taka inn makríltroll og yfirfara það fyrir væntanlega makrílvertíð.
Talsverð þróunarvinna á sér stað hjá fyrirtækinu og nú er verið að skoða poka fyrir botnfisktroll. Þar er verið að skoða hvar best sé að toga í pokana og hugsað um gæði fisksins og að fiskurinn komi sem ferskastur og minnst marinn úr pokanum.
Sverrir Þorgeirsson við saumaskap.