Það var alltaf sussað á mig
Óperusöngvarinn Jóhann Smári Sævarsson hefur sungið með stærstu hljómsveitum í heimi, í stærstu tónlistarhúsunum en kom svo heim til Keflavíkur til að kenna söng og stýra karlakórum.
Jóhann Smári Sævarsson er einn af sonum Keflavíkur sem hin síðari ár hefur látið mikið að sér kveða í menningarlífi Suðurnesja og ekki ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar kemur að því að setja upp menningarviðburði á hinu klassíska sviði.
Jóhann Smári hóf söngnám við Tónlistarskólann í Keflavík hjá Árna Sighvatssyni og við Nýja tónlistarskólann hjá Sigurði Demetz. Hann stundaði framhaldsnám við sameiginlega óperudeild Royal College of Music og Royal Academy of Music í London.
Að námi loknu réði Jóhann Smári sig sem einsöngvari við Kölnaróperuna og var þar í þrjú ár. Jóhann var einnig fjögur ár á föstum samningi við óperuna í Regensburg, hann söng sem gestasöngvari við fjölda óperuhúsa í Evrópu og hefur starfað með ýmsum frægum hljómsveitastjórum. Þá hefur hann sungið óperuhlutverk í áttatíu og fimm óperuuppfærslum á ferlinum. Nú kennir hann söng, setur upp verk og stýrir karlakórum á Suðurnesjum.
Byrjaði að syngja nítján ára
Jóhann Smári settist niður með Víkurfréttum í myndveri fyrr á árinu. Hann var gestur okkar í sjónvarpsþáttaseríunni Suður með sjó og viðtalið verður aðgengilegt á vf.is fyrir jólin.
Hvenær manstu fyrst eftir þér að fikta í tónlist eða söng?
„Söngurinn byrjaði ekkert fyrr en ég var nítján ára. Ég var búin að reyna að syngja bakraddir í hljómsveit en það var alltaf sussað á mig því ég var svo djúpraddaður. Ég söng reyndar fyrir barnakórinn hjá Hreini Líndal og hann sagði mér að halda bara áfram í fótboltanum af því ég var svo djúpraddaður.
Svo fer ég í Karlakór Keflavíkur og finn ég að þarna gengur þetta upp í klassíska söngnum. Siguróli Geirs hvatti mig til að fara að læra, sem og pabbi og mamma. Þetta lá náttúrulega vel við að enda í tónlist með þessa fjölskyldu. Mamma að spila undir hjá öllum einsöngvurum og pabbi að leika og syngja einsöng með karlakórnum. Svo þegar ég byrjaði að prófa þetta þá fann ég að þetta lá mér mjög vel og eftir að ég kynntist Demma [Sigurði Demetz], kennaranum mínum í Reykjavík, fann ég strax að þetta var bara ævintýraheimur. Ég var búinn að vera í leiklist, dansi og rokkhljómsveit. Alltaf að reyna að búa til eitthvað nýtt og allt í einu er þarna heimur sem er með allt sem mér finnst skemmtilegt í listum.“
Að leika og syngja er það sem heillar
Þannig að í bítlabænum Keflavík fórst þú aðra leið heldur en flestir.
„Já. Við erum reyndar nokkrir þarna af þessari kynslóð eins og Davíð Ólafsson og Bjarni Thor. Við bara fundum okkur og erum með þannig raddir allir þrír að þetta er ekki beint popp. Ég reyndi það á sínum tíma með Ofris, söng þar um tíma en það var ekki mitt, en óperuheimurinn er líka fyrir karaktera eins og mig, Bjarna og Davíð. Þetta að leika og syngja er það sem heillar.
Gekkstu venjulega skólagöngu í tónlistarskólunum fyrst, eða hvernig gerðist þetta?
„Ég byrjaði í Tónlistarskóla Keflavíkur hjá Árna Sighvatssyni og svo söng ég fyrsta einsönginn minn með Karlakór Keflavíkur og Sigurði Demetz, sem kenndi Kristjáni Jóhannssyni, Gunnari Guðbjörnssyni og öllum þessum. Hann var þarna og hann kenndi líka pabba og hann sagði: Þú ert með rödd til að fara í óperuna. Ég ætlaði bara geta sungið með karlakórnum. Svo flyt ég í bæinn og hann eiginlega bara tók mig að sér. Hann lét mig fá þrjá söngtíma í viku í staðinn fyrir einn. Ég átti bíl og ég keyrði hann alltaf heim á eftir. Við komum við í kaupfélaginu og á pulsuvagninum. Hann sagði mér að segja ekki frá því að þeir hafi fengið sér pylsu og svo fórum við heim til hans og hann eldaði pasta. Og settust svo inn í stofu og þá spilaði hann gömlu meistarana og var að segja mér hvernig þessi óperuheimur virkar. Ég sá þetta alveg í hyllingum.“
Sást sæng þína útbreidda á þessu sviði?
„Fyrsta óperusýningin sem ég sá sat ég og hugsaði, af hverju er ég hérna, og svo bara byrjaði sýningin og hún leið eins og augnablik. Ég var algjörlega heillaður frá fyrsta skiptinu.“
Okkur vantar svona rödd
Hvað varstu mörg ár í námi?
„Hérna heima var ég tvö ár í Keflavík og svo fjögur hjá Demma. Við ætluðum alltaf að ég færi svo til Ítalíu í framhaldsnám en í millitíðinni fékk í hlutverki Borgarleikhúsinu, fyrsta hlutverkið mitt, í La Bohème. Þar var frægur píanisti sem kennir við Royal College of Music í London sem sagði: Heyrðu, þú verður að koma til okkar því okkur vantar svona rödd og ég fékk pláss þar með fullum styrkjum þannig að ég var í þrjú ár þar með rosalega flotta kennara, heimsfrægan óperusöngvara, Norman Bailey, sem kenndi mér þarna lengst. Ég söng fullt af hlutverkum og fékk mörg verkefni fyrir utan skólann. Þetta var mjög spennandi tími í Royal Albert Hall. Sex þúsund og sexhundruð sæta konserthöll. Ég var að syngja við Glyndbourn, sem er eitt það virtasta, söng þar Fígaró í Brúðkaupi Fígarós og London Philharmonic að spila undir. Árin í London voru rosalega flott. Þar tók ég þátt í keppni og komst í úrslitin og út frá því fékk ég samning við Kölnaróperuna sem var fyrsti fastráðni samningurinn minn.“
Hvað ertu gamall þarna?
„Ég er tuttugu og átta. Ég byrja um haustið og varð tuttugu og níu í október og þetta var risaskref. Manni finnst maður náttúrulega ógeðslega góður hérna heima og svo kemur maður í skólann og fattar að maður er miðlungsmaður. Maður vinnur og vinnur og vinnur, svo finnst manni maður vera orðinn ógeðslega góður þar. Svo kemur maður á sviðið í Kölnar óperunni og á fyrstu æfingunni á sviðinu heyrði ég ekki einu sinni hvort ég væri að syngja. Það var svo miklu stærra hljóðið í hinum. Reyndar sagði konan mín fyrrverandi að hún hafi alveg heyrt í mér en mér bara brá svo. Maður lærir söng í lítilli stofu en þú lærir fyrst að syngja óperusöng þegar út kemur á þessi svið. Þá skilur þú hvað þetta er stórt og af hverju þú þarft að syngja svona sterkt.“
Þú ert bassi, er hann sjaldgæfari en hinar raddirnar?
„Algengasta röddin er baritón, sem ég reyndar syng líka. Það er sjaldnar að maður fær alvöru tenór eða alvöru bassa. Ég hef í gegnum ferilinn verið að fikra mig alltaf aðeins hærra. Það er þarna fag sem heitir Heldenbaritone. Þar eru Hollendingurinn fljúgandi og svoleiðis og þetta eru meiri svona aðalhlutverk og það heillaði.“
Gat ekki sagt nei
Hvað tekur svo við? Fleiri gestahlutverk úti í heimi?
„Ég söng þrettán hlutverk í Kölnar-óperunni og svo var mér boðinn samningur áfram en ég ákvað að fara heim þá. Það er ýmislegt í gangi, pólitík og annað, sem er skuggahlið í þessum heimi og mér leið ekki vel og við ákváðum að fara heim. Þá fór ég á Akureyri og var deildarstjóri við söng- og óperudeildina þar í tvö ár. Svo komum við hingað til Keflavíkur og þá gerðum við ævintýrið í dráttarbrautinni árið 2001. Svo var mér boðinn samningur aftur úti og það voru hlutverk sem ég gat ekki sagt nei við. Baron Ochs! í Rósariddaranum, sem er eitt það stærsta sem til er. Það eru hátt í þrjú hundruð blaðsíður sem hann syngur einn. Svo Fiðlarinn á þakinu og margt fleira. Ég var þarna fjögur ár og var í þannig stöðu að óperustjórinn spurði hvað ég vildi syngja á næsta ári. Það var æðislegt að geta valið hvað var sett næst á svið. Ég söng örugglega tuttugu og tvö, þrjú hlutverk þar og eiginlega allt aðalhlutverk.“
Þarna ertu orðinn flottur atvinnumaður í greininni. Hvernig var venjulegur dagur hjá þér?
„Ég er rosalega þakklátur fyrir árin í Köln, því þar var ég meira peð og miðlungsmaður og gat horft á hina hvernig þeir vinna og hvernig þeir hituðu upp, lærðu teygjuæfingar og allt saman. Röddin óx og ég var með flottan kennara þar líka. Þegar ég kem í Regensburg, sem er hitt húsið sem ég var fastráðinn við, þá er það bara fabrikka. Þeir fluttu þrettán óperur á ári og ég söng kannski sjö á einu ári og allt aðalhlutverk.
Þú ert að æfa kannski eina óperu um morguninn frá tíu til eitt, ert að syngja eitthvað annað um kvöldið og ert að æfa þriðju óperuna daginn eftir og syngja eitthvað allt annað hitt kvöldið. Þarna fengum við stundum ekki frídag í tvo, þrjá mánuði af því það voru alltaf sýningar. Svo hélt þetta áfram en ég lærði rosalega mikið líka á því að kunna mörg hlutverk þannig að þá gat maður farið að taka verkefni. Það var kannski hringt klukkan tólf á hádegi og spurt: kanntu þetta hlutverk og ertu til í að syngja í kvöld hérna? Þá fékk maður, ef það var einhver annar texti, sendan textann í faxi, það er svo langt síðan og maður lærði textana í lestinni. Svo mætti maður á staðinn og það var fundinn búningur og maður þurfi að stökkva inn því einhver var veikur. Leikstjórinn stóð yfir manni meðan var verið að setja á mann farðann. Svo hittir þú kollegana í fyrsta skipti á sviðinu og jafnvel hljómsveitarstjórinn vissi ekki einu sinni að ég ætti að syngja og rak upp stór augu þegar ég kom labbandi inn,“ segir Jóhann Smári og hlær.
Nær alltaf í toppformi
Gekk þetta alltaf vel?
„Þetta gekk alveg ótrúlega vel. Þetta verður einhvers konar rútína. Þegar þetta er orðin vinnan manns og þú ert að gera þetta allan daginn, þá þarftu eiginlega aldrei að hita upp röddina, þú ert alltaf í formi, einbeitingin er svo há. Svo færðu þau verkefni þar sem þú átt að syngja óratóríu eða eitthvað og þá færðu bara nóturnar og þú bara lest þær og færð kannski eina, tvær æfingar. Á Íslandi er yfirleitt æft hálfan eða heilan vetur til að gera eitthvað sem þú færð nokkurra daga til í útlöndum. Þar er bara stokkið í djúpu laugina.“
Fyrir leikmann þá ímynda ég mér að það sé erfitt að læra allan þennan texta utan að og sérstaklega með stuttum fyrirvara. Kemst það upp í vana hjá atvinnumönnum?
„Þú lærir hvað þú þarft að vera vel undirbúinn. Mín spurning þegar ég mæti í verkefni er yfirleitt hvort það sé hvíslari. Ef þú veist að það er hvíslari, þá hittir þú hann á undan. Þegar þú ert búinn að taka leiklistaræfingarnar þá er þetta ekkert mál, því þú lærir textann með hreyfingunum.“
Þegar þú ert úti á hátindi ferilsins. Hvernig líf er það, er þetta vel launað?
„Það fer eftir því hvar þú ert. Þú ert ekki að lifa neinu lúxuslífi. Það var farið á pöbbinn eftir sýningu og tekinn einn, því ef þú fórst beint heim, þá var hausinn á yfirsnúningi og þú varst andvaka fram eftir nóttu og þurftir svo að mæta á söngæfingu klukkan tíu morguninn eftir. Þetta líf er þannig að ef þú kemst í þá stöðu að fá gestahlutverk og stökkva inn í sýningar, þá fékk ég stundum mánaðarlaunin mín fyrir eitt kvöld. Kristján Jóhannsson sagði að hann var að fá milljón krónur á kvöld. Ég var aldrei þar. Ég var samt þar að manni fannst þetta góður peningur. Gallinn er að þegar þú ert ekki lengur fastráðinn þá ertu alltaf að hugsa: Hvað næst? Nú þarf að hringja í umboðsmann og fá prufur fyrir næsta verkefni, komast í næsta hlutverk. Það gekk fínt.“
Í ferðatösku meirihlutann af árinu
Þegar ég ákvað að fara heim til Íslands fékk ég listamannalaun. Á þessum tíma var ég skilinn við fyrrverandi konuna mína, börnin mín voru hér heima og ég var að hitta þau kannski samanlagt einn og hálfan mánuð á ári. Ég gat það ekki. Þú ert kannski í ferðatösku meirihlutann af árinu. En vinnan er æðisleg. Ég fór á marga frábæra staði að syngja. Svo ferðu bara upp á hótel og situr þar og ferð að fletta í sjónvarpinu. Ég pældi meira að segja í því hvort ég ætti að fara að læra arkitektúr til að hafa eitthvað að gera, því þetta var allt komið í tölvur. Ég fór meira að segja í viðtal fyrir svoleiðis en komst að því að þetta yrði sjö ára nám og þá bakkaði ég með þetta. Þetta er stórkostlegur heimur en þú þarft að vilja þetta.“
Er eitthvað eitt sem er eftirminnilegast?
„Það er svo margt. Hvað þetta er yfirþyrmandi stórt er kannski augnablikið í Glyndbourn með Bernard Haitink og London Philharmonic eða þegar mér bauðst að syngja Mahler áttunda í Berlínar Philharmonic. Mahler áttundi er eitt það stærsta sem til er. Það eru eitthundrað og fimmtíu í hljómsveitinni, fimmhundruð í kórnum, fimmtíu í barnakór og átta einsöngvarar. Þarna er ég að syngja í einu frægasta tónlistarhúsi í heimi með einni frægustu hljómsveit í heimi. Þetta er allt til á video og þegar ég horfði á þetta nýlega fékk ég næstum köfnunartilfinningu og bara vá!, þetta er ég að gera þetta. Þá var ég líka í þessum fasa að þetta er bara vinnan mín. Ég fékk þetta verkefni bara með tveggja og hálfrar viku fyrirvara. Ég mæti á fyrstu æfinguna í risastórri kirkju og hún er pakkfull af fólki. Ég get verið svolítil díva og fór á háa C-ið við umboðsmanninn og spurði hvaða bull þetta væri, full kirkja af áhorfendum á fyrstu æfingu. Hann var fljótur að ná mér niður og segja: Þetta er kórinn.“
Og svo liggur leiðin heim?
„Það var enginn að ýta á mig með þetta. Ég og Jelena konan mín vorum þá byrjuð saman og búin að vera saman í einhver þrjú ár þegar við tökum ákvörðun um að fara heim. Við bjuggum á fallegasta stað í heimi, Regensburg á bökkum Dónár. Þarna var ekkert sprengt í stríðinu og þetta er eins og að ganga um í póstkorti. En ég gat bara ekki meira og hún ákvað að koma með mér, sem betur fer. Við ákváðum að koma hingað. Ég hætti ekki að syngja og fór alltaf reglulega út. Þetta er 2008, korter í kreppu, þá stóð til að byggja óperuhús í Kópavogi og Stefán Baldursson var búinn að segja við mig að ef ég flytti heim biði mín samningur við óperuna. Garðar Cortes bauð mér líka að kenna hjá sér. Við vorum nýbúin að kaupa okkur hús þegar allt hrundi en ég fór nokkrum sinnum út aftur að syngja.“
Komið víða við eftir komuna heim
Frá því Jóhann Smári kom heim úr atvinnumennskunni hefur hann verið að kenna við tónlistarskólana í Reykjanesbæ, Garði og Sandgerði, Nýja tónlistarskólann, Söngskóla Sigurðar Demetz og Söngskólanum. Jóhann Smári var með námskeið í Listaháskólanum og var lengi vel prófdómari þar. Þá hefur hann verið að syngja í útförum og hjá Íslensku óperunni, þar sem hann hefur sungið mörg hlutverk.
Norðuróp er merkilegt verkefni sem þú hefur komið að og í gegnum Norðuróp hefur þú komið að uppsetningu margra verka.
„Í gömlu Dráttarbraut Keflavíkur var ópera eftir Puccini sem var bara einþáttungur þannig að við fluttum sálumessu eftir Sigurð bróður eftir hlé og óperuna hans. Hann skrifaði út hljómsveitina, sem átti að vera sinfóníuhljómsveit, fyrir átta hljómborð. Við vorum með poppara og klassíska. Hvert hljóðfæri var stillt, tréblástur, málmblástur, fiðlur og svo framvegis. Garðar Cortes stjórnaði og Garðar Thor Cortes debúteraði sem óperusöngvari í Dráttarbrautinni. Það var það fyrsta sem hann gerði. Í sjónvarpinu í Þýskalandi var hann kynntur sem söngleikjastjarnan Garðar Thor Cortes. Það var mjög gaman. Svo vorum við með Tosca í Keflavíkurkirkju sem tókst alveg ótrúlega vel.“
Hvert verkefnið hefur rekið annað hjá Jóhanni Smára og hans fólki. Hann setti upp Hollendinginn fljúgandi með rokkhljómsveit. Svo kom Brúðkaup Fígarós í samstarfi við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar. Árið 2022 setti Jóhann Smári upp Sálumessu Mozart í Duus safnahúsum. Það er í fyrsta skipti sem Jóhann Smári stjórnar stórri hljómsveit og hann segir það vera stressandi en þegar hann er að syngja. Hann langaði að taka Sálumessu Mozart lengra og hafa dansara en það verkefni hefði verið of dýrt, þar sem þeir styrkir sem fást til svona verkefna eru takmarkaðir.
Er nægur efniviður hér suður með sjó í kórum og öðru sem þú þarft í svona uppfærslur?
„Það voru ótrúlega margir sem vildu vera með en gátu ekki. Við hefðum getað verið með sjötíu manna kór. Sálumessa Verdi var svo aðeins öðruvísi verkefni. Ég er ekki að segja að það söngfólk sem við eigum hérna hafi ekki ráðið við það en það þurfa að vera bombu-raddir.“
Jóhann Smári segir að hann hafi fengið mjög sterk viðbrögð frá fólki hér á Suðurnesjum eftir síðustu tvær uppfærslur á bæði Mozart og Verdi. Hann hafi verið faðmaður í skrúðgarðinum og bankað hafi verið upp á hjá honum þar sem fólk hafi lýst hrifningu sinni.
Jóhann Smári er ánægður með samstarfið við Tónlistarskóla Reykjanesbæjar og án þess væri ekki hægt að setja upp svona stór verkefni. Tónlistarskólinn leggur til húsnæði fyrir æfingar og í tónlistarskólanum sé einnig fjársjóður af frábæru tónlistarfólki.
Dreymir um óperustúdíó
Jóhanni Smára dreymir um óperustúdíó á Suðurnesjum. „Það er draumurinn minn núna og ég er búinn að reyna að sækja um styrki fyrir því í nokkur ár, og ég ætla ekki að hætta því. Mér finnst að það eigi að vera óperustúdíó hér af því við höfum reynsluna, þekkinguna og húsnæði. Þegar þú ert að nálgast það að útskrifast og fyrir fólk sem er útskrifað þá kemur alltaf þetta tómarúm. Á ég að fara í framhaldsnám erlendis, á ég að reyna að komast að í óperunni en óperan ræður ekki neinn sem ekki hefur sungið í óperu áður. Þau eru bara í limbói en þetta fólk getur fengið reynslu hjá okkur, byggt sig upp og komið svo og sagt: „Ég er búinn að syngja þetta og þetta og fá tækifæri.“ Við erum ekki að biðja um neinar svakalegar fúlgur. Styðjið þetta og þá getum við skipulagt ár fram í tímann, getum samnýtt fólk í verkefni og þá myndast þekking og boltinn byrjar að rúlla.“
Um sönginn segir Jóhann Smári. „Þetta er ástríðan mín. Ég er ekki að gera þetta fyrir peningana. Ég var úti í heimi að vinna með stórkostlegu fólki, stærstu hljómsveitum í heimi, glæsilegum óperuhúsum og konserthúsum og kem svo hér og elska vinnuna mína, kenna fólki að syngja og stjórna Karlakór Keflavíkur og Víkingunum. Þetta er gaman en ég þarf einhverstaðar að fá útrás fyrir þetta, alveg eins og þau, fyrir þetta sem ég lærði og er þjálfaður í og á því stigi sem ég var vanur að vera í á hverjum degi. Ég fæ gæsahúð að hugsa um þessi verkefni.“