Föstudagur 11. júní 2021 kl. 14:18

Tegundagreining - Steingrímur Eyfjörð opnar í Listasafni Reykjanesbæjar

Tegundagreining er sambland endurlits og nýrra verka eftir Steingrím Eyfjörð sem ekki áður hafa komið fyrir sjónir almennings. Sýningin er tilraun listamannsinns til að skýra kveikjuna að myndsköpuninni. Verkin eru afmörkuð og staðsett með flokkunarkerfi, mynstri sem þróast hefur á löngum ferli. Sýningin opnar laugardaginn 12. júní í Listasal Duus safnahúsa í Reykjanesbæ.

Sýningin hefur verið í mótun í um eitt ár og mun setja fram óvænta sýn á höfundaverk Steingríms Eyfjörðs. Listamaðurinn hefur auðkennt ákveðna yfir flokka sem settir eru fram í því samhengi, þeir eru: Hið ósnertanlega, Arfurinn, Heimur kvenna, Gagnrýni, Guðs eigið land, Kellingin, Decode, Comix.

Í sýningaskrá ritar Halldór Björn Runólfsson:

„Það er engu logið þegar fullyrt er að Steingrímur Eyfjörð sé meðal okkar allra sérstæðustu listamanna. Það helgast ekki síst af persónulegri nálægð hans við viðfangsefnið – það hversu langt hann leyfir list sinni að afhjúpa sinn innri mann án þess að blikna. Það vill honum til happs hve margslunginn hann er, víðlesinn og áhugasamur um alla skapaða hluti; hvers kyns arkitektúr og bókmenntir, fagurfræði, félagsfræði, goðafræði, heimspeki, listfræði, litafræði, líffræði, stærðfræði, trúfræði og verkfræði, að ógleymdri pólitík. En tilraun til að henda reiður á því öllu er til lítils.“

Listasafn Reykjanesbæjar gefur út veglega sýningarskrá í tilefni af sýningu Steingríms Eyfjörð, þau sem rita texta eru: Halldór Björn Runólfsson, Aðalsteinn Ingólfsson, Benedikt Hjartarson, Jón Bjarni Atlason og Helga Þórsdóttir. Einnig skrifar listamaðurinn eigin skýringar á myndverkunum.

Listasafn Íslands, Listasafn Reykjavíkur og Nýlistasafnið lánuðu verk eftir Steingrím Eyfjörð á sýninguna ásamt fjölmörgum einkasöfnurum sem lánuðu sýningunni myndverk. Listasafn Reykjanesbæjar þakkar öllum þessum aðilum fyrir samstarfið og þá viljum við einnig minnast sérlega á Hverfisgallerí sem aðstoðaði safnið við gerð sýningarinnar.

Sýningin opnar þann 12.06.21, klukkan 13:00 og stendur til og með sunnudagsins 22.08.21. Listasafn Reykjanesbæjar er opið alla daga á milli 12:00 – 17:00.