Ritstjórn
Ritstjórn skrifar
föstudaginn 16. júní 2023 kl. 09:17

Tæp klukkustund af áhugaverðu Suðurnesjamagasíni

Enn einn þátturinn af Suðurnesjamagasíni er kominn úr smiðju Sjónvarps Víkurfrétta. Nú eru þættirnir orðnir 443 talsins en Suðurnesjamagasín hefur verið á dagskrá vf.is í áratug og einnig í sjónvarpi. Þátturinn er aðeins aðgengilegur á vefnum um þessar mundir og í sjónvarpinu hjá fólki sem sér stöðina Augnablik í kapalsjónvarpinu í Reykjanesbæ. Þáttur þessarar viku er í lengra lagi en hann er tæp klukkustund í spilun.

Ein öflugasta stuðningssveit landsins er í Grindavík. Félagsskapurinn heitir Stinningskaldi og mætir á alla knattspyrnuleiki hjá bæði konum og körlum í Grindavík. Og stuðningurinn er mikill því það er sungið og trommað allt þar til dómarinn flautar leikinn af. Við kíktum í stúkuna á Stinningskalda.

Góðar vinkonur í Reykjanesbæ fengu þá hugmynd í matarboði fyrir ári síðan að stofna barnavöruleigu fyrir ferðafólk. Nú leigja þær úr kerrur, barnabílstóla og í raun allt það sem ferðafólk þarf fyrir börnin sín á ferðalögum.

Verkefnið „Gróðurhús í grænum skóla er áskorun og ævintýri“ á leikskólanum Tjarnarseli hlaut Hvatningarverðlaun fræðsluráðs Reykjanesbæjar.

Tæknismiðja verður opnuð á Suðurnesjum í haust. Skrifað var undir samninga um smiðjuna, sem oft er nefnd FAB LAB, í Fjölbrautaskóla Suðurnesja í vikunni. Við vorum við undirskriftina.

Heimahöfn varðskipsins Þórs verður í Njarðvík þegar lokið verður við að byggja viðlegukant fyrir skipið ásamt nauðsynlegum innviðum. Viljayfirlýsing um málið var undirrituð á dögunum.

Nálgast má nýjasta þáttinn í spilaranum hér að ofan en einnig má sjá allt okkar efni á Youtube undir Sjónvarp Víkurfrétta.