Miðvikudagur 18. janúar 2017 kl. 11:31

Tækifærin eru á Suðurnesjum

Við áramót - Atli S. Kristjánsson

Hvað finnst þér eftirminnilegast frá Suðurnesjum á árinu 2016?

Í fyrsta lagi vil ég nefna að það var fallegt að sjá Suðurnesjamenn standa saman að bættum samgöngum eftir hræðilegt slys á Reykjanesbraut. Þessi samstaða skilaði frábærum árangri. Í öðru lagi vilja ég nefna ferðaþjónustuna, en metfjöldi heimsótti Ísland á árinu og fór þá í gegnum flugstöðina og margir hverjir nutu upplifunar í Bláa Lóninu og annarra gersema á Suðurnesjum. Í þriðja lagi ber að nefna frábæran árangur skólanna, má þá nefna helst niðurstöður úr PISA könnuninni og árangur í Skólahreysti. Í fjórða lagi fannst mér eftirminnilegt að sjá endurbætur gamalla húsa eins og Fisherhússins í Reykjanesbæ, en þessi hús bera með sér mikla sögu og menningarleg verðmæti fyrir Suðurnesin. Okkur ber að verja og rækta þessa sögu en ég tel mikil tækifæri liggja þarna en húsin eru bæjarprýði og höfða án efa til bæði innlendra og erlendra ferðamanna.



Hver finnst þér hafa verið mest áberandi Suðurnesjamaðurinn á árinu 2016?

Frábær árangur Arnórs Ingva og Ingvars Jónssonar er á meðal þess sem helst stóð upp úr, en eins og alþjóð veit þá voru þessar hetjur okkur til sóma með íslenska karlalandsliðinu í fótbolta á EM í sumar. Þeir eru einnig frábærar fyrirmyndir fyrir ungu kynslóðina.

Hver fannst þér vera stærstu málin á Suðurnesjum 2016?



Endurskipulagning fjármála Reykjanesbæjar er eitt af stóru málunum og þá sérstaklega að náðst hafi að semja við kröfuhafa, sem verður að teljast mikið fagnaðarefni. Að auki fannst mér ánægjulegt að sjá samþykktir fyrir tveimur hringtorgum, annað við gatnamót Reykjanesbrautar og Hafnaveg og hitt við gatnamót Reykjanesbrautar og Aðalgötu. Enn fremur var ánægjulegt að sjá að framkvæmdir hófust strax á Reykjanesbraut við Hafnaveg. Þá eru spennandi hlutir að gerast í tengslum við verkefnið Reykjanes UNESCO Geopark og uppbyggingu þjónustumiðstöðvar fyrir ferðamenn á Reykjanesi. 




Hvernig sérðu Suðurnesin á nýju ári?



Ég sé fyrir mér mikinn vöxt á Suðurnesjum á næstu árum. Atvinna er næg og mun aðeins aukast, þá sérstaklega í kringum ferðaþjónustuna. Sem dæmi má nefna að Bláa lónið gerir ráð fyrir 100 nýjum starfsmönnum á árinu 2017 í tengslum við opnun nýs upplifunarsvæðis og hótels. Það verður því aukin eftirspurn eftir húsnæði á Suðurnesjum sem mun leiða til hækkunar á fasteignamarkaði, en Suðurnesin eiga enn inni þar. Ég sé fyrir mér rekstraraðila veitingastaða sem sérhæfa sig í hollum og góðum réttum, til dæmis Saffran og/eða sjá tækifærin sem hér eru og opni á árinu. Að mínu mati liggja tækifæri á Suðurnesjum og það eru bjartir tímar framundan hjá okkur.