Sýnir töfrabrögð á heimsmælikvarða til styrktar Velferðarsjóði Suðurnesja
Einar Mikael töframaður hefur verið duglegur að skemmta landanum að undanförnu og á dögunum hélt hann sýningu í Austurbæ sem vakti stormandi lukku. Einar er einn færasti töframaður landsins en hann er útskrifaður úr Hogwarts School of Witchcraft and Wizardy og er að taka masterinn í fjarnámi þessa stundina.
Einar Mikael á fjölda sýninga að baki og kenndi tæplega 2000 börnum töfrabrögð á síðasta ári.
Á laugardag ætlar Einar að halda fjölskylduskemmtun í Frumleikhúsinu í Reykjanesbæ þar sem framkvæmd verða töfrabrögð á heimsmælikvarða. Sýningin sem hefst kl. 15:00 verður 90 mínútna löng og er ætlum öllum aldurshópum. Aðeins kostar 1200 krónur inn og mun allur aðgangseyrir renna óskiptur til Velferðarsjóðs Suðurnesja.
Einar Mikael kíkti í vikunni í heimsókn á leikskólann Gimli í Njarðvík þar sem hann skemmti börnunum á Útgarði en þau voru dugleg að aðstoða töframanninn og skemmtu sér konunglega.
Myndband með nokkrum töfrabrögðum sem Einar Mikael sýndi á Gimli er hér að ofan.