Sunnudagur 15. nóvember 2015 kl. 08:26

Svona var hrekkjavakan

– Sjónvarp Víkurfrétta á meðal uppvakninga og undravera

Halloween eða hrekkjavaka nýtur æ meiri hylli hér á landi. Sumir fussa og vilja meina að siðurinn sé amerískur meðan aðrir hafi bent á að hrekkjavakan eigi sér í raun djúpar íslenskar rætur og sé rammíslenskur siður og rakinn til heiðinnar hátíðar.

Á hrekkjavöku klæðast börn og fullorðnir hræðilegum grímubúningum. Börn ganga hús úr húsi og bjóða grikk eða gott og fá þá yfirleitt sælgæti að launum fyrir að gera ekki ó-skunda.

Við óvísindalega samantekt Sjónvarps Víkurfrétta þá virðast íbúar Njarðvíkur og á Ásbrú í Reykjanesbæ hafa verið fyrstir til hér suður með sjó að taka upp siði hrekkjavökunnar. Þau heimili sem vilja taka á móti hrekkjóttum börnum eru merkt þannig að þar logar kertaljós við innganga og oftast í útskornum graskerjum.

Börnin í hverfinu gátu því bankað uppá á mörgum stöðum um síðustu helgi og fengið gott í stað þess að gera grikk. Síðar um kvöldið mátti svo sjá fullorðna fólkið á skemmtistöðum í búningum og með andlitsmálningu í anda hrekkjavökunnar.

Meðfylgjandi myndskeið tók myndatökumaður Sjónvarp Víkurfrétta í Innri Njarðvík og á Ásbrú þegar hrekkjavakan stóð sem hæst.