Mánudagur 26. febrúar 2024 kl. 23:42

Svona hljómar viðvörunarlúðurinn í Grindavík

Viðvörunarlúðrar í Grindavík og við Bláa lónið voru prófaðir í kvöld. Á slaginu 22:00 voru lúðrarnir þeyttir í um mínútu og flautið heyrðist langar leiðir. Nokkrum mínútum síðar fóru lúðrarnir aftur af stað og þá með öðrum hætti.

Lúðurinn í Grindavík er staðsettur á íþróttahúsi bæjarins en samkvæmt upplýsingum Víkurfrétta er vilji til þess að setja upp annan viðvörunarlúður í bænum til að tryggja að óhljóðin sem frá þeim berast skili sér örugglega til allra sem eru í bænum.

Það voru fáir á ferli í Grindavík í kvöld. Fréttamenn sem fylgdust með æfingunni sáu enga á ferli nema lögreglumenn og búkollur sem notaðar eru við gerð varnar- og leiðigarða vestan við byggðina í Grindavík.