Þriðjudagur 27. desember 2011 kl. 09:39

Svona eru aðstæður hrikalegar í Black Angel í Grænlandi - video

Þið verðið að sjá þessar videomyndir sem fylgja þessari frétt. Öðruvísi er varla hægt að setja sig inn í aðstæður sem tveir björgunarsveitarmenn úr Reykjanesbæ vinna við á Grænlandi, nema hreinlega að fara með þeim í vinnuna.

Haraldur Haraldsson sjúkraflutninga- og slökkviliðsmaður í Reykjanesbæ og björgunarsveitarmaður úr Björgunarsveitinni Suðurnes sótti um starf þar sem óskað var eftir ævintýragjörnum sjúkraflutningamanna til Grænlands. Hann segir í samtali við Víkurfréttir sem birtist í jólablaðinu nú í desember og hér á vf.is í gær að hann hafi í raun ekki gert sér grein fyrir því út í hvað hann var að fara fyrr en hann mætti í vinnuna fyrsta daginn. Danska vinnueftirlitið segir að þetta sé hættulegasti vinnustaðurinn í danskri lögsögu. Samstarfsmaður Haraldar í námunni er Ingvi Kristinn Skjaldarson sem kemur einnig frá Björgunarsveitinni Suðurnes en Haraldur fékk hann til að starfa á móti sér í öryggismálunum. Þeir starfa í námunni í sex vikur og fara svo heim til Íslands í 3ja vikna frí á milli. Þegar Haraldur er úti er Ingvi heima og öfugt. Þeir félagar eru báðir húsasmiðir og sjúkraflutningamenn og hafa starfað í björgunarsveit í tvo áratugi.

Og hvar er vinnustaðurinn? Hann er í námu í Marmorilik í Uummannaqfirði á vesturströnd Grænlands, langt fyrir norðan hinn byggilega heim. Náman er í fjalli sem heitir Black Angel eða Svarti engillinn og er inngangurinn í námuna í 600 metra hæð utan í snarbröttum kletti. Til þess að komast inn í námuna þarf í dag að notast við þyrlu sem lendir á þyrlupalli í 740 metra hæð. Þaðan þarf að fara niður snarbrattan stiga niður að námuopinu. Stiginn er 416 þrep og tekur bæði á rass og læri. Það tekur 3-7 mínútur að fara niður stigann og ræðst af veðri. Hins vegar getur tekið um stundarfjórðung að ganga upp stigann eða jafnvel nokkra klukkutíma ef koma þarf sjúklingi upp stigann.