Sverrir Þór Sverrisson: Þetta verður jafnara en oft áður
Tímabilið í Iceland Express deild kvenna leggst mjög vel Í Sverri Þór Sverrisson þjálfara Njarðvíkinga en þeim var spáð 6. sætinu í ár af þjálfurum og fyrirliðum. Njarðvíkingar byrjuðu leiktíðina með öruggum sigri á Haukum en í kvöld takast þær á við KR sem er spáð góðu gengi í vetur. „Ég held að þetta verði mun jafnara en oft áður og maður er bara spenntur að fara að byrja,“ segir Sverrir og bætir því við að hann taki nú spána ekkert of alvarlega. „Spá er bara spá og bæði ég og leikmenn mínir teljum okkur geta mun betur og stefnum á að gera það. Ég er ekkert of mikið að velta mér upp úr þessu en það er bara gaman að sjá hvernig spekingarnir eru að meta þetta svona fyrir mót.“
Hver eru ykkar markmið fyrir tímabilið?
„Við ætlum bara að halda því innan okkar liðs en þau eru töluvert hærri en þetta.“
Sverrir segir hópinn í ár ekkert vera síðri en þann sem Njarðvíkingar höfðu í fyrra, hann sé þó aðeins öðruvísi. „Við fengum reynslu þegar Harpa og Petrúnella komu yfir og svo kemur Dalla til okkar sem er hávaxin og efnileg stelpa. Stelpurnar úr yngriflokkastarfinu eru strax byrjaðar að spila og erlendu leikmennirnir lofa góðu. Við erum að slípa okkur saman þar sem þetta er tiltölulega nýtt lið og ef það tekst fljótlega þá erum við í ansi góðum málum.“
En eru Njarðvíkingar samkeppnishæfir í toppbaráttunni?
„Ég er ekki alveg farinn að hugsa svo langt en ég tel okkur vera samkeppnishæf gegn hvaða liði sem er á góðum degi,“ sagði Sverrir Þór að lokum en sjá má viðtal við hann hér að ofan.