Svartur húmor í leikriti um morðingja
- Grunnskólar á Suðurnesjum taka þátt í leiklistarhátíð í samstarfi við Þjóðleikhúsið
Ungir leikarar, ljósa- og hljóðmenn standa nú í ströngu í Gerðaskóla í Garði við æfingar á leikritinu Morði eftir Ævar Þór Benediktsson. Uppsetning á verkinu er í samstarfi við Þjóðleik sem er leiklistarhátíð ungs fólks á landsbyggðinni í nánu samstarfi við Þjóðleikhúsið. Þekkt íslensk leikskáld eru fengin til að skrifa krefjandi og spennandi verk. Í ár gátu leikstjórar valið um þrjú leikrit og varð leikritið Morð fyrir valinu í Garði. Vitor Hugo Rodrigues Eugenio, kennari við Gerðaskóla, leikstýrir hópnum. Nokkrir skólar á Suðurnesjum taka þátt í ár og setur hver skóli upp sína leiksýningu. Þetta er í fyrsta sinn sem Þjóðleikur kemur til Suðurnesja.
Vitor segir leikritið Morð vera uppfullt af góðum, svörtum húmor en það fjallar um morðingja sem hittast einu sinni í viku og ræða saman um glæpi sína. Félagið kalla þeir Morðingjar Anonymous. „Þegar morðingjarnir hittast notast þeir við gælunöfn. Þarna í hópnum er einn sem er kallaður Stefnandi. Hann drepur fólk sem gefur ekki stefnuljós. Svo er þarna bókasafnsfræðingurinn sem drepur fólk sem fer illa með bækur. Nýr meðlimur, Businn, kemur í hópinn og það kemur margt í ljós varðandi hans persónu,“ segir Vitor leyndardómsfullur á svip.
Hópurinn er búinn að æfa leikritið síðan í janúar en þá hittust leikhópar frá nokkrum skólum á Suðurnesjum í Reykjanesbæ á námskeiði. Leikstjórarnir eru í öllum tilvikum kennarar og sóttu þeir saman námskeið í Reykjavík fyrr í vetur. Í síðasta mánuði komu ljósa- og hljóðmenn frá Þjóðleikhúsinu og héldu námskeið í Garði fyrir alla í hópunum á Suðurnesjum og segir Vitor það hafa verið mjög skemmtilegt og margar góðar hugmyndir kviknað. Frumsýning verður í Gerðaskóla 28. apríl næstkomandi og leiklistarhátíðin Þjóðleikur verður haldin á Suðurnesjum 29. og 30. apríl.