Mánudagur 21. febrúar 2011 kl. 15:57

Svæsinn draugagangur í Háaleitisskóla

Svæsinn draugagangur gerði vart við sig í Háaleitisskóla á Ásbrú í síðustu viku. Mörgum nemendum varð mjög brugðið og sumir brustu í grát. Aðrir voru sterkari og gátu tjáð sig um reynslu sína af draugunum. Nemendurnir teiknuðu myndir af því sem fyrir augu bar og settu reynslu sína niður á blað.

Draugagangurinn var hins vegar manngerður og var hluti af þemaviku Háaleitisskóla þar sem nemendur unnu verkefni m.a. upp úr sögum um Djáknann á Myrká og fleiri sögum. Þá var sett upp draugahús í skólanum og það var þar sem skelfingin var svo mikil að sumir brustu í grát. Allt endaði þó vel og verkefnið um draugasögurnar tókst vel. Myndir sem nemendur unnu eru á veggjum skólans. Meðfylgjandi myndband var tekið í Háaleitisskóla fyrir helgi.