Suðurnesjamenn ársins 2021 í Suðurnesjamagasíni
Víkurfréttir hafa valið félaga í Björgunarsveitinni Þorbirni og Slysavarnadeildinni Þórkötlu í Grindavík Suðurnesjamenn ársins 2021 fyrir fórnfúst starf í Grindavík í aðdraganda eldgossins í Fagradalsfjalli og fyrir þá vinnu sem fram fór á meðan gaus. Rætt er við þau við þau Boga Adolfsson, Otta Rafn Sigmarsson og Guðrúnu Kristínu Einarsdóttur í Suðurnesjamagasíni í kvöld, fimmtudagskvöld, á Hringbraut og vf.is kl. 19:30.
Mikið hefur mætt á björgunarsveitarfólki í Grindavík allt síðasta ár og í raun lengur, því atburðarásin hófst í raun í lok janúar 2020 þegar land tók að rísa vestan við fjallið Þorbjörn, skammt frá byggðinni í Grindavík. Þá var lýst yfir óvissustigi Almannavarna. Björgunarsveitin Þorbjörn var þegar virkjuð og í hönd fór fimmtán mánaða vinna í aðdraganda eldgoss.
Frá því eldurinn braust upp á yfirborðið hefur vinnan svo margfaldast hjá björgunarsveitarfólkinu í Grindavík og bakvarðasveit þeirra, Slysavarnadeildinni Þórkötlu.