Suðurnesjamagasín: Spennt fyrir nýju námi en ekki óvön grjónapúðum
Lovísa Gunnlaugsdóttir og Stefán Ingi Víðisson eru í fyrsta hópnum sem fer í tölvuleikjagerðarnámið í Menntaskólanum á Ásbrú. Það leggst vel í þau.
„Mig langaði að prófa eitthvað annað en þetta hefðbundna nám. Umhverfið og skólastofan leggst vel í mig. Við erum þó ekki óvön þessu því við þekkjum þetta úr skólanum okkar, Heiðarskóla í Reykjanesbæ,“ sagði Lovísa og bætti því við að það opnuðust ýmsir möguleikar í framtíðinni eftir svona nám.
„Ég hef alltaf haft mikinn áuga á tölvuleikjum. Þegar tækifærið kom að geta skapað og búið til sjálfur og komast í nýtt og óhefðbundið nám, þá stökk ég á tækifæri. Ég sé alveg fyrir mér að starfa við þetta í framtíðinni. Ég fer mikið í tölvuleiki en hef þó ekki gert neitt í tölvuleikjagerð hingað til. Það verður gott að losna við hefðbundnum hvítu veggina og skjávarpann. Það eru komnir sófar og grjónapúðar sem mér líst vel á þó svo þetta sé ekki alveg nýtt fyrir okkur í Heiðarskóla. Ég held að maður muni fá breiðan grunn eftir námið sem mun nýtast í öðrum störfum,“ sagði Stefán Ingi.
Þegar þau voru spurð um vinsælasta tölvuleik unga fólksins í dag var svarið einfalt: „Minecraft er vinsælasti tölvuleikurinn hjá unga fólkinu. Þú byggir þína eigin veröld úr kubbum,“ sögðu þau bæði.
Um eitthundrað nemendur sóttu um í nám í tölvuleikjagerð í nýjum Menntaskóla Keilis á Ásbrú og aðeins tæplega helmingur þeirra komst að. Fyrsta skólasetning nýrrar námsbrautar Menntaskólans á Ásbrú fór fram á mánudag að viðstaddri Lilju Alfreðsdóttur mennta- og menningarmálaráðherra. Þar komu saman nemendur í fyrsta árgangi tölvuleikjagerðarbrautar skólans en nýbreytni er að boðið sé upp á slíkt nám á framhaldsskólastigi hér á landi. Í spilaranum hér að ofan er innslag úr Suðurnesjamagasíni um nýja skólann.