Suðurnesjamagasín: Fjallganga og kraftajötunn
- ásamt menningarviku og 5000 myndbandsspólum á safni
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar og vf.is í kvöld, fimmtudagskvöld, kl. 20:00 og aftur kl. 22:00.
Það er talsverð hreysti í þessum þætti okkar. Við byrjum þáttinn með Arnari Má Ólafssyni úr Grindavík. Hann var orðinn 130 kíló og fannst kominn tími til að taka á lífi sínu. Hann hóf því að ganga á bæjarfjallið Þorbjörn. Hann fer stundum margar ferðir á dag upp fjallið.
Einn af sonum Keflavíkur er nýlega fallinn frá. Viðar Oddgeirsson var ötull í að skrá sögu Suðurnesja og eftir hann liggja um 5000 myndbandsspólur hjá Byggðasafni Reykjanesbæjar. Við tókum hús á byggðasafninu og komumst að því að mikil verðmæti liggja í gömlum og nýjum myndum.
Stefán Sturla er tollvörður sem hefur gaman af því að rífa í stál. Hann æfir lyftingar í Massa í Njarðvík en Stefán - eða Spjóti eins og hann er kallaður - bjó um tíma með Jóni Páli Sigmarssyni, sterkasta manni heims. Við kíktum á æfingu með Spjóta og fengum sögur úr ræktinni.
Menningarvika Grindavíkur er framundan með fjölbreyttri dagskrá. Við ræddum við menningarfulltrúann í Grindavík um það sem er framundan í menningunni.