Suðurnesjamagasín er hér!
- Þríburar í Grindavík og tónsmíðar Más Gunnarssonar meðal efnis
Suðurnesjamagasín er á dagskrá Hringbrautar í kvöld kl. 20:00 og aftur kl. 22:00. Þessi vikulegi sjónvarpsþáttur úr smiðju Víkurfrétta er fjölbreyttur að vanda.
Ungt fólk af Suðurnesjum er fyrirferðarmikið í þættinum. Við byrjum þáttinn í Grindavík á viðtali við þær Önnu Margréti, Natalíu Jenny og Theu Ólafíu. Þær eru þríburasystur og fyrstu þríburarnir sem fæðast í Grindavík. Þær leika allar körfubolta með Grindavík. Við hittum þær í íþróttahúsinu og ræddum um körfuboltann og sitthvað fleira.
Már Gunnarsson er bæði tónlistarmaður og sundgarpur. Hann lætur það ekki trufla sig þó sjónin sé aðeins um 1% af því sem venjuleg sjón getur talist. Hann tók nýverið þátt í söngvakeppni í Póllandi fyrir tilstuðlan Lions. Við hittum Má, ræddum við hann um tónlistina og fáum að heyra lagasmíðar.
Verandi með alþjóðaflugvöllinn í túnfætinum þá er auðvelt að skreppa með flugi bæði til Evrópu og Vesturheims. Suðurnesjamagaín skrapp með Icelandair til Philadelphia í Bandaríkjunum.
Þáttinn endum við svo á stuttum fréttapakka frá Suðurnesjum.
Nýjasta þáttinn má sjá í spilaranum hér að ofan.